Blaðamannafélag Ísland fordæmir vinnubrögð Seðlabankans

Hér má sjá ályktun Blaðamannafélags Íslands:

Reykjavík 1. ágúst 2019

„Blaðamannafélag Íslands fordæmir þau vinnubrögð sem Seðlabanki Íslands hefur viðhaft í kjölfar
fyrirspurna blaðamanns Fréttablaðsins um launakjör og hlunnindi, sem bankinn hefur veitt
starfsmönnum sínum.
Öllum má vera ljóst að þessi mál varða almenning í landinu og því fráleitt hjá stjórnendum
Seðlabankans að neita að veita þessar upplýsingar. Af fréttum að dæma virðist hér vera um að ræða
sérstakt mál innan bankans sem ekki styðst við neinar þekktar reglur eða fordæmi og því enn
mikilvægara að upplýsa málið. Seðlabankinn er opinber stofnun og getur ekki hundsað að veita
almenningi í landinu upplýsingar um starfsemi sína, ákvarðanir stjórnenda bankans og meðferð
opinbers fjár.
Þá fordæmir Blaðamannafélag Íslands sérstaklega þá fráleitu tilraun sem stjórnendur Seðlabankans
hafa viðhaft til að þagga niður málið með því að stefna umræddum blaðamanni Fréttablaðsins fyrir
dóm með það fyrir augum að stöðva umfjöllun hans um Seðlabankann. Þessi vinnubrögð bankans
bera keim af leyndarhyggju og kúgunartilburðum sem á ekki að viðgangast hjá opinberum
stofnunum. Að mati Blaðamannafélags Íslands er ólíðandi að blaðamenn þurfi að standa í
langvinnum, dýrum og tímafrekum málarekstri til að fá upplýsingar frá opinberum aðilum sem þeir
eiga rétt á að fá samkvæmt upplýsingalögum.
Blaðamaður Fréttablaðsins hefur unnið að málinu af samviskusemi og einurð og hefur nú niðurstöðu
úrskurðarnefndar um upplýsingamál sér til fulltingis. Nefndin úrskurðaði að bankinn ætti að veita
upplýsingarnar en þrátt fyrir þá niðurstöðu kýs bankinn að höfða mál á hendur viðkomandi
blaðamanni. Blaðamannafélag Íslands krefst þess að Seðlabankinn láti af þessum fyrirætlunum og
afhendi gögnin strax.
Blaðamannafélag Íslands minnir á það mikilvæga hlutverk fjölmiðla að vera vettvangur fyrir þjóðina,
æðsta vald lýðveldisins, til að nálgast upplýsingar vegna ákvarðana í mikilvægum málum. Því er brýnt
að opinberir aðilar virði rétt blaðamanna til aðgangs að upplýsingum og beiti ekki öllum brögðum til
að koma í veg fyrir slíkt.“

Fyrir hönd stjórnar Blaðamannafélags Íslands

____________________________________
Hjálmar Jónsson, formaður