BÍ: Þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu

Stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti svohljóðandi ályktun á fundi sínum í dag 15. jan. 2021

"Það verða straumhvörf í íslenskri fjölmiðlasögu þegar fréttir Stöðvar 2 hætta að vera í opinni dagskrá núna í janúar eftir 34 ára nánast samfellda starfsemi.  Það eru tímamót þegar fréttir Stöðvar 2, til að mynda af náttúruhamförunum á Seyðisfirði fyrir fáum vikum síðan, verða fyrir áskrifendur eingöngu en ekki fyrir allan almenning þessa lands. Það er þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu og áfellisdómur yfir þeim rekstrarskilyrðum sem fyrirtækjum hefur verið búin á þessum markaði frá því að frelsi á ljósvakamarkaði varð að veruleika um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað vakið athygli á þeim óeðlilegu skilyrðum sem löggjafinn hefur ákveðið að búa fyrirtækjum á þessum markaði. Í hnotskurn má til dæmis sjá það í áliti stofnunarinnar frá því um miðjan nóvember 2008, rúmum mánuði eftir hrun, í tengslum við þá ákvörðun að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi.  Þar segir að erfiða stöðu keppinauta RÚV á auglýsingamarkaði megi að verulegu leyti rekja „til þeirra ósanngjörnu samkeppnisaðstæðna sem ríkja á umræddum markaði og stafa af lögunum um RÚV og samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækisins á auglýsingamarkaðnum“ og það sé „veigamikil ástæða þess að ekki eru fleiri öflugar sjónvarpsstöðvar hér á landi en raun ber vitni.“

Það er slæmt að fréttir Stöðvar 2 verði framvegis í lokaðri dagskrá þar sem það minnkar samkeppni á ljósvakamarkaði, en samkeppni á þessu sviði sem öðrum er aflvaki gæða. Það er út af fyrir sig þrekvirki að fréttir Stöðvar 2 hafi verið í opinni dagskrá í 34 ár í því samkeppnisumhverfi sem stöðinni hefur verið búin.  Hvaða annar samkeppnisrekstur býr við það að 2/3 hlutar rekstrarkostnaðar samkeppnisaðilans séu greiddir, vegna fyrirmæla ríkisvaldsins?

Áður hefur Skjár 1 hætt fréttaútsendingum fyrir fáum árum síðan og þriðji aðili hefur aldrei náð að fóta sig vegna þeirra samkeppnisskilyrða sem þessum rekstri eru búin. Aðrar sjónvarpsstöðvar eru að reyna að hasla sér völl, en það er erfiðara en ella vegna þess að það er vitlaust gefið. Íslensk samfélagsumræða líður fyrir það.  Hvergi í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við eru stöðvar í opinberri eigu reknar að stórum hluta fyrir auglýsingafé.

Það er von Blaðamannafélags Íslands að þessi ákvörðun eigenda Stöðvar 2 verði ekki til þess að fréttir stöðvarinnar leggist af fyrir fullt og allt. Það yrði enn meiri afturför og áfall fyrir samfélagsumræðu í landinu.

Þegar ljósvakinn var frelsaður úr viðjum einokunar árið 1985 var það upphafið að mesta blómatíma í sögu íslenskrar fjölmiðlunar og undirstaða framfara í íslensku samfélagi á svo ótal mörgum sviðum.  Núna þegar útsendingar frétta Stöðvar 2 læsast öðrum en áskrifendum er það táknrænn lægsti punktur í samtímasögu íslenkrar fjölmiðlunar og segir ömurlega sögu um stöðuna á þessum markaði. 

Netvæðingin hefur eyðilagt hefðbundið tekjulíkan fjölmiðla og það er enn ekkert komið í staðinn, þrátt fyrir að notkun á fjölmiðlum hafi aldrei fyrr verið jafn mikil. Það eru tækifæri samfara tækninni, eins og dæmin sýna, en fjölmiðlar þurfa tíma til að fóta sig í nýjum veruleika.  Í millitíðinni þarf hið opinbera að koma að málum með sambærilegum hætti og gert er í nágrannalöndum okkar.  Við þurfum ekki að finna upp hjólið, þrautreyndar aðferðir í þeim efnum eru fyrir hendi."