- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Nemendur í nýtilkomnu BA-námi í blaðamennsku við HÍ heimsóttu Blaðamannafélag Íslands mánudaginn 26. ágúst og fengu kynningu á starfsemi, verkefnum, tilgangi og siðareglum félagsins auk þess sem Sigríður Dögg Auðundsdóttir, formaður félagsins, deildi með þeim reynslu sinni af blaðamennsku.
Þau tímamót urðu í Háskóla Íslands í síðustu viku, þegar kenndur var fyrsti tíminn í nýju BA-námi í blaðamennsku við stjórnmálafræðideild skólans. Fleiri umsóknir bárust um námið en unnt var að samþykkja og eru nú um tuttugu nemendur skráðir. Nemendur munu meðal annars sinna starfsnámi við fjölmiðla landsins á námstímanum, ásamt því að sitja námskeið sem undirbúa þá fyrir störf við fjölmiðla framtíðar. Valgerður Anna Jóhannsdóttir, dósent og félagsmaður í Blaðamannafélagi Íslands, hefur umsjón með náminu.
Árið 2022 hóf Blaðamannafélagið vinnu við að efla frekar nám við blaðamennsku á Íslandi og hóf fljótlega samtal við Valgerði, sem hafði þá umsjón með MA-námi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Valgerður tók verkefnið föstum tökum og fékk hljómgrunn innan HÍ um mikilvægi þess að skólinn bjóði upp á grunnnám í blaðamennsku, sem og hjá ráðherra menningarmála, sem sýndi málinu mikinn stuðning. TIlkynnt var um það í fyrravetur að frá og með haustinu 2024 yrði því boðið upp á BA-nám í blaðamennsku við Stjórnmálafræðideild og stjórnvöld styðja námið fyrstu þrjú árin með því að menningar- og viðskiptaráðuneytið fjármagnar eitt stöðugildi við deildina. Stuðningur stjórnvalda við grunnám í blaðamennsku til þriggja ára er hluti af aðgerðaáætlun í fjölmiðlastefnu stjórnvalda sem lögð verður fram á Alþingi í haust.