Blaðamenn og innflytjendaumræðan

Aidan White
Aidan White

Athyglisverða umræðu er að finna í nýjasta fréttabréfi EJA (Ethical Journalism Network), en þar reifar Aidan White, áhrifamaður innan alþjóðlegrar blaðamannahreyfingar, fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóða blaðamannasambandsins og núverandi stjórnarformaður EJN, hugmyndir sínar um skrif og umfjöllun um flóttamenn og innflytjendur. White sem hefur verið að dæma og fara yfir tilnefningar til verðlauna fyrir umfjöllun um innflytjendur í fjölmiðlum segir að á sama tíma og margt sé frábærlega gert á þessu sviði  trufli það hann nokkuð hversu mikil áhersla er á það sem hann kallar „fórnarlambs-blaðamennsku“, þ.e. að kastljósinu er beint að erfiðleikum og vandamálum sem finnast í þessum málaflokki en lítil áhersla sé á að benda á lausnir eða draga fram það sem vel hefur heppnast eða er uppbyggilegt. Hann segir: „Vel skrifaðar, áhrifamiklar og tilfinningaríkar frásagnir fórnarlamba eru ekki nóg til að segja fréttirnar skilmerkilega og siðlega. Það er vissulega mikilvægt að draga fram hrylling þessa kreppuástands. En þegar það er gert þurfum við að hugsa um hvað við getum gert til að hafa áhrif,“ segir White.

Þau sjónarmið sem White dregur fram um samfélagsleg ábyrgð blaðamanna hafa stundum verið til umræðu meðal íslenskra blaðamanna, sem margir hverjir hafa gagnrýnt þetta sjónarmið og talið það geta leitt til sjálfsritskoðunar og rétttrúnaðar. Ekki síst í því ljósi er áhugavert að skoða þessa umræðu og nýta hana til glöggvunar á því hvert hlutverk blaðamanna er og á að vera.

Sjá einnig hér