Bréf til formanna ríkisstjórnarflokkanna

Blaðamannafélag Íslands hefur sent bréf á formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, sem nú eru í stjórnarmyndunarviðræðum, þar sem þau eru hvött til þess að í stjórnarsáttmála verði ákvæði um að tryggja skuli að á Íslandi fáist þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar. Þeim er bent á aðgerðir sem Blaðamannafélagið telur nauðsynlegt að grípa til, til þess að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. Bréfið er svohljóðandi:

Ágætu Katrín, Sigurður Ingi og Bjarni.

Blaðamannafélag Íslands hvetur ykkur, formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja sem nú eru í stjórnarmyndunarviðræðum, að gera það að hluta af stjórnarsáttmála ykkar að tryggja að á Íslandi fái þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar. 

Líkt og Blaðamannafélagið benti á í aðdraganda kosninga í áskorun sinni til stjórnmálaflokka eru fjölmiðlar grundvöllur lýðræðislegrar umræðu og lýðræðislegra samfélaga. Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur versnað mikið á undanförnum árum, ekki síst vegna stórfelldra breytinga á fjölmiðlamarkaði með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og tæknirisa á borð við Facebook og Google sem soga til sín æ stærri hluta af auglýsingafé. Nú er svo komið að nær ómögulegt er að reka fjölmiðla á Íslandi án þess að til frekari aðgerða verði gripið af hálfu stjórnvalda.

Staða fjölmiðla er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra heldur varðar hún samfélagið allt. Sterkir, öflugir fjölmiðlar eru forsenda fyrir því að hægt sé að veita stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald og tryggja upplýsingagjöf sem er grundvöllur lýðræðisins.

Tillögur BÍ til eflingar rekstrarumhverfis íslenskra fjölmiðla:

Í skýrslu um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 sem unnin var að beiðni menntamálaráðherra er að finna tillögur sem Blaðamannafélag Íslands hvetur ykkur til þess að útfæra í samvinnu við hagsmunaaðila. Nokkrar þeirra eru útlistaðar hér að neðan með tillögum BÍ um útfærslu og fleiri bætt við.

1. Stuðningur til einkarekinna miðla
Ein af tillögum skýrslunnar er nú orðin að lögum og hefur BÍ lýst ánægju sinni með þá grundvallarstefnubreytingu sem þau marka hvað varðar opinberan stuðning til einkarekinna fjölmiðla. Lagasetning þessarar tegundar er fyrsta skrefið í að viðurkenna mikilvægi fjölmiðla fyrir virkni lýðræðis í landinu og því aðhaldi sem það veitir.  Þó svo að Blaðamannafélagið fagni því að Ísland fylgi fordæmi hinna Norðurlandaþjóðanna sem hafa með góðum árangri um langt skeið styrkt einkarekna fjölmiðla með ýmsum hætti, er rétt að árétta að nauðsynlegt er að auka það fé sem veitt er til fjölmiðla, endurskoða úthlutunarreglur svo þeir nái til fleiri miðla og gera úrræðið varanlegt. 

2. RÚV fari af auglýsingamarkaði
Lagt er til að taka RÚV af auglýsingamarkaði sem BÍ telur nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara rekstrarumhverfis fyrir einkarekna fjölmiðla. Blaðamannafélag Íslands leggur á það höfuðáherslu að RÚV verði ekki tekið af auglýsingamarkaði nema rekstur stofnunarinnar verði tryggður með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem vega muni upp á móti tekjutapi þegar auglýsingasölu verður hætt. Þá er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingu til RÚV til lengri tíma, til að mynda 8-10 ára í senn og setja ákvæði inn í  þjónustusamning þess efnis. Ennfremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir það að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar.

3. Skattlagning erlendra tæknirisa
Sívaxandi hlutdeild erlendra tæknirisa í auglýsingamarkaði á Íslandi er verulegt áhyggjuefni í ljósi þeirrar skökku samkeppnisstöðu sem íslenskir fjölmiðlar eru í gagnvart þeim. Nauðsynlegt er að bregðast við án tafar og skattleggja þessi erlendu fyrirtæki. Þannig myndi samkeppnisstaðan skána en hægt væri að ganga enn lengra til stuðnings íslenskum fjölmiðlum og láta það fjármagn sem skattlagning erlendu tæknirisanna skilar renna í sérstakan sjóð sem væri úthlutað óskert til íslenskra einkarekinna miðla.

4. Stofnun fjölmiðlasjóðs
Lagt er til að stofnaður verði almennur fjölmiðlasjóður eða þróunarsjóður, sem hafi breitt hlutverk, allt frá því að styrkja tæknilega nýbreytni og þróun nýrra viðskiptaaðgerða til rannsóknarblaðamennsku og sérstakra verkefna sem falla utan endurgreiðslukerfis eins og þar segir. BÍ tekur undir þessa tillögu. Ein útfærsla þessarar hugmyndar gæti verið stofnun sérstaks, sjálfstæðs sjóðs til styrktar rannsóknarblaðamennsku sem BÍ hafi umsjón með. Sjóðurinn gæti verið fjármagnaður með styrkjum úr ríkissjóði, frá BÍ og Félagi fréttamanna/BHM og öðrum fag- og stéttarfélögum sem og framlögum frá einkafyrirtækjum og stofnunum.

5.  Kaup hins opinbera á auglýsingum
Það ber vott um skilningsleysi á mikilvægi íslenskra fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu að stjórnmálaflokkar og opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki skuli verja æ stærra hlutfalli auglýsingafjármagns í birtingar auglýsinga á erlendum miðlum. Blaðamannafélag Íslands skorar á stjórnmálaflokkana og stjórnvöld að setja sér stefnu, sem birt er opinberlega, um hlutfall auglýsingafjármagns sem veitt er til erlendra miðla, og jafnframt að birta árlega sundurliðun á því hve miklu fjármagni var varið til erlendra miðla annars vegar og íslenskra hins vegar. 

6. Hagfelldara skattaumhverfi
Meðal þeirra aðgerða sem beitt er á hinum Norðurlöndum til styrktar einkareknum fjölmiðlum eru ýmiss konar skattaafslættir. Meðal þess sem grípa mætti til hér á landi er að lækka eða afnema virðisaukaskatt áskrifta hjá öllum tegundum fjölmiðla. Þá gefur hin alvarlega staða í rekstrarumhverfi fjölmiðla tilefni til þess að veita fjölmiðlum undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds.

7. Áfengisauglýsingar verði heimilaðar
BÍ bendir á það misræmi sem ríkir milli erlendra og íslenskra miðla hvað varðar tekjumöguleika af birtingu áfengisauglýsinga. Með aukinni notkun Íslendinga á erlendum fjölmiðlum, samfélagsmiðla og efnisveitna hafa forsendur fyrir banni gegn birtingu áfengisauglýsinga brostið og mismunun orðið til. Íslenskir fjölmiðlar ættu að hafa sömu tækifæri til fjármögnunar á grundvelli birtingar áfengisauglýsinga og erlendir miðlar sem eru á sama markaði.

8. Stuðningur við textun og talsetningu
Þá er lagt til af höfundum skýrslunnar að stjórnvöld styðji textun og talsetningu sem væri annað hvort í formi endurgreiðslu tiltekins hlutfalls af kostnaði fjölmiðla eða sem styrkir. BÍ hvetur stjórnmálaflokka til að íhuga þann mikla kostnað sem hlýst af því fyrir ljósvakamiðla að uppfylla mikilvæga, lagalega skyldu sína um þýðingu fjölmiðlaefnis á erlendri tungu og finna leiðir til að koma til móts við hann og liðka þannig fyrir rekstri íslenskra ljósvakamiðla.

Formaður og stjórn Blaðamannafélags Íslands eru reiðubúin til samtals við ykkur, eða aðra fulltrúa stjórnaflokkanna, um tillögurnar, stöðu fjölmiðla og framtíðarhorfur þeirra hvenær sem þess er óskað.

Með vinsemd og virðingu,

Sigríður Dögg Auðunsdóttir,
formaður Blaðamannafélags Íslands