Drónabanni mótmælt

Erindi Blaðamannafélags Íslands til lögreglustjórans á Suðurnesjum, Almannavarna og Samgöngustofu vegna aðgangs blaðamanna í jarðhræringunum á Reykjanesskaga
 
Samgöngustofa tilkynnti í dag að vegna líklegs eldgoss hefði drónaflug verið bannað á allstóru svæði yfir og í kringum Grindavík. Í tilkynningu er bannið ekki rökstutt frekar og ekki vísað í lagaheimildir fyrir því.

Í frétt á mbl.is í kvöld kemur fram að bannið hafi verið sett á að beiðni Almannavarna. Þar er haft eftir fulltrúa Samgöngustofu að þetta hafi verið gert annars vegar til að drónar trufluðu ekki hugsanlegt vísindaflug og hins vegar til að tryggja að fólk sé ekki á skilgreindu hættusvæði.

Ljósmyndarar, myndatökumenn og aðrir blaða- og fréttamenn sem eru að störfum á hættusvæði þurfa að að sjálfsögðu að gæta fyllstu varúðar og gæta þess að skapa ekki hættu fyrir vísindamenn og björgunarfólk. Við þessar aðstæður er því mikilvægt að góðar samskiptaleiðir séu til staðar milli blaðamanna og yfirvalda svo tryggja megi öryggi vísindamanna og björgunarfólks um leið og myndum af atburðunum er miðlað til almennings. Að mati Blaðamannafélags Íslands er hins vegar óeðlilegt að yfirvöld banni alfarið drónaflug blaðamanna við störf.

Í hamfaraástandi er hlutverk blaðamanna að vera augu og eyru almennings á staðnum og flytja fólki sem heima situr sem gleggstar og nákvæmastar upplýsingar af atburðunum, þar á meðal með myndum. Blaðamenn gegna einnig mikilvægu hlutverki við að skrásetja sögulega atburði svo upplýsingar, þar á meðal myndefni, varðveitist og verði aðgengilegt til langrar framtíðar.

Fram kemur á vef Samgöngustofu að drónaflug á vegum ríkislögreglustjóra, Almannavarna og Landhelgisgæslu Íslands sé undanþegið banninu. Blaðamannafélag Íslands telur eðlilegt að blaðamenn við störf verði einnig undanþegnir því. Um leið vill félagið árétta mikilvægi almenns aðgangs blaðamanna að hinu lokaða svæði, eftir því sem mögulegt er og í samráði við yfirvöld.

Blaðamannafélagið biðlar því til lögreglustjóra, Almannavarna og Samgöngustofu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að liðka fyrir aðgangi blaðamanna, bæði við núverandi aðstæður og ef eldgos hefst, svo hægt sé að skrásetja þennan sögulega atburð og miðla sem bestum upplýsingum um hann til almennings.