Lögreglan verði að fara varlega í aðgerðum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mynd: Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Mynd: Alþingi.

Að frumkvæði Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, fór fram stutt umræða á Alþingi í dag um rannsóknaraðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi eystra gegn fjórum blaðamönnum. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma spurði þingmaðurinn Katrínu Jakobsdóttur for­sæt­is­ráð­herra út í þögn hennar í mál­inu, þar sem umræddir blaða­menn hafa verið með stöðu sak­born­ings frá því febr­úar vegna rann­sóknar lög­reglu á meintu broti á frið­helgi einka­lífs­ins. Annar ráð­herra rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Bjarni Bene­dikts­son, hefur í tvígang skrifað færslu á Face­book vegna máls­ins, sem Blaðamannafélagið gerði í bæði skiptin alvarlegar athugasemdir við. 

Arndís Anna vísaði í fyrirspurn sinni sérstaklega til þess að við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins í lok síðasta árs hafi forsætisráðherra gerst yfirmaður málaflokks mannréttinda og mannréttindasamninga. Þess vegna hafi „þögn hæst­virts for­sæt­is­ráð­herra í þessu máli verið eft­ir­tekt­ar­verð. Hér eru undir grund­vall­ar­mann­rétt­indi. Tján­ing­ar­frelsi blaða­manna, lífæð lýð­ræð­is­ins. Lög­reglan mis­notar vald sitt til að þagga niður í blaða­mönnum fyrir að flytja frétt­ir. Hæst­virtur fjár­mála­ráð­herra mætti á sviðið til að segja fjöl­miðla­mönnum að hunskast bara í yfir­heyrslur og hætta að vera svona góð með sig,“ sagði Arn­dís Anna og spurði for­sæt­is­ráð­herra hvort hún hefði engar áhyggjur af þess­ari atburða­rás. „Telur hún ekk­ert athuga­vert við vinnu­brögð lög­regl­unnar eða er hún sam­mála afstöðu hæst­virts fjár­mála­ráð­herra?“ 

Forsætisráðherra kvaðst ekki hafa þagað um þessi mál, og vísaði til þess að árið 2011 hafi að hennar frumkvæði verið innleidd sú réttarbót í fjölmiðlalög að blaðamönnum beinlínis bæri að upplýsa ekki um heimildamenn sína ef hinir síðarnefndu óska slíkrar verndar. Katrín sagði að lög­reglan verði að vera með­vituð um það að allar rann­sókn­ar­að­gerðir sem bein­ast gegn fjöl­miðlum geti haft fæl­ing­ar­á­hrif gagn­vart þeim. „Því ber lög­regl­unni að fara sér­stak­lega var­lega þegar um er að ræða frjálsa fjöl­miðla sem eru að fjalla um við­kvæm mál í sam­fé­lag­inu í sínum rann­sókn­um.“ 

Nánar er fjallað um málið í þessari frétt Kjarnans.is, en horfa má á upptöku af umræðunni hér á vef Alþingis.