Metaðsókn að námskeiði NJC á Íslandi

Þetta er þriðja árið í röð sem NJC stendur fyrir námskeiði fyrir norræna blaðamenn um loftslagsvandann. Tilgangurinn er að gefa blaðamönnum þá þekkingu, tengslanet og verkfæri sem þeir þurfa til að fjalla með faglegum hætti um þau flóknu mál sem tengjast loftslagsbreytingunum. Í ár fer námskeiðið fram í Reykjavík, eins og áður segir, en fleiri en 50 blaðamenn hafa sótzt eftir að skrá sig. Með því að bæta við aukanámskeiði var hægt að bjóða 32 blaðamönnum þátttöku, en þar sem enn er talsverður fjöldi á biðlista er NJC að vinna í því að bæta við námsplássum til að koma til móts við hina miklu eftirspurn. 

„Eftirspurnin hefur verið mikil í hvert sinn, en í ár sló hún út allar væntingar,“ er haft eftir John Frølich, forstöðumanni NJC, í frétt á vef miðstöðvarinnar. „Þessi mikli áhugi gleður okkur að sjálfsögðu, því hann staðfestir að við erum á réttri leið, og að það er um þessar mundir mikill skriðþungi með því að fara dýpra í og útvíkka umfjöllun blaðamanna um loftslagsmálin,“ segir hann. 

Fyrir áhugasama um norrænt samstarf má reyndar benda á að á morgun, 29. september, verða liðin 100 ár frá stofnun Norræna félagsins á Íslandi. Í tilefni aldarafmælisins hefur allt árið 2022 verið „helgað norrænu samstarfi, norrænni vitund, menningu og samkennd,“ eins og segir í frétt á vef Norræna félagsins. Félagið boðar til veglegrar afmælisveislu á Hótel Borg að kvöldi aldarafmælisdagsins: 

„Á sjálfan afmælisdaginn verður efnt til norrænnar afmælisveislu á Hótel Borg og félagsmenn og aðrir áhugasamir eru hvattir til að taka þátt og fagna með okkur. Veislustjóri kvöldsins verður Anna Svava Knútsdóttir. Forseti Íslands flytur ávarp ásamt formanni Norræna félagsins og hljómsveitin Hundur í óskilum sér um skemmtiatriði.  Skráning fer fram á norden@norden.is“.