Viðræður um sameiningu BÍ og FF standa yfir

Stjórn BÍ samþykkti nýverið að ganga til óformlegra viðræðna við Félag fréttamanna á ríkisútvarpinu eftir að beiðni þess efni barst stjórn í lok síðasta mánaðar. Stjórn BÍ er á einu máli um að sameining félaganna verði til þess að efna enn frekar samstöðu innan stéttarinnar og faglegt starf félagsins. Félag fréttamanna telur það einnig en í bréfi FF til stjórnar segir m.a.:

Undanfarið hefur verið hart sótt að blaða- og fréttamennsku á Íslandi. Hefur sú aðför beinst að grunnstoðum blaðamennskunnar; tjáningarfrelsinu og heimildarmannaverndinni. Ljóst er að sameinað félag allra blaða- og fréttamanna yrði öflugri málsvari blaðamennskunnar en félögin hvort í sínu lagi, í baráttunni fyrir vernd þessara grunngilda. Einnig má telja að sameinað félag geti verið sterkari málsvari félagsmanna í baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum.

Blaðamannafélag Íslands tekur undir þetta og bindur vonir við að samningar takist um sameiningu. Félagar í Félagi fréttamanna eru um 60 og eiga allir rétt á að ganga í BÍ líkt og þeir tæplega 30 fréttamenn og tökumenn á RÚV sem þegar eru félagar í BÍ. Þar sem félagar FF eiga óskoraðan rétt á að ganga í BÍ, og stjórnin fagnar hugmyndum um sameinuð félög og fjölgun félagsmanna í BÍ, munu viðræðurnar við FF því fyrst og fremst snúa að því hvernig sameiningu félaganna verður háttað, ef af henni verður.

Meðal þess sem er til umræðu er hvort FF kjósi að hafa sérstakan samningsrétt - þar sem félagið er þegar með sérstakan kjarasamning sem er í nokkrum meginatriðum frábrugðinn kjarasamningi BÍ. Einnig kemur til greina að FF verði undirdeild í BÍ, líkt og Félag blaðaljósmyndara er nú. Það myndi til að mynda greiða fyrir því að fréttamenn á RÚV hafi sérstakan samningsrétt. Þá er verið að skoða hvort FF komi með einhverja sjóði inn í sameinað félag og hvenær nýir félagsmenn öðluðust full réttindi, strax við inngöngu eða eftir sex mánuði.

Stefnt er að því að viðræðum verði lokið fyrir aðalfund BÍ sem haldinn verður 28. apríl og niðurstöður kynntar fyrir þann tíma. Félagsfundur um stöðu viðræðnanna verður haldinn á rafrænu formi föstudaginn 22. apríl kl. 11. Sigríður Hagalín Björnsdóttir, formaður FF, verður einnig til svara á þeim fundi. Slóð á fundinn (Google Meet) er hér að neðan. 

F.h. stjórnar BÍ
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður

ATH vegna jarðarfarar Elínar Pálmadóttur blaðamanns hefur fundurinn verið færður til kl. 11. Hann var áður auglýstur kl. 12.30.

Online félagsfundur um sameiningu BÍ og FF
Friday, 22 April · 11:00am – 12:00pm
Google Meet joining info
Video call link: https://meet.google.com/qwo-bbof-aey
Or dial: ‪(IS) +354 539 0680‬ PIN: ‪201 856 520 9958‬#
More phone numbers: https://tel.meet/qwo-bbof-aey?pin=2018565209958