Vilhelm verðlaunaður fyrir ljósmynd ársins 2021

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, hlaut í dag verðlaun fyrir mynd ársins á verðlaunaafhendingu Blaðaljósmyndarafélags Íslands, Veitt voru verðlaun í 7 flokkum auk bestu myndar ársins, sem var mynd Vilhelms af eldgosinu í Geldingadölum.

Í umsögn dómnefndar um myndina segir: Sterk og frumleg mynd af einu stærsta fréttamáli ársins sem fangar líka stemningu ársins í heild sinni. Formið ógeðslega flott og sterkur partur af myndinni. Myndin er grafískt vel unnin og contrasturinn er flottur. Eðlilegt val miðað við hversu stóran þátt eldgosið átti þátt í árinu fyrir fólk. Ljósmyndin er frumleg nálgun á eldgosinu. Einstök mynd af gosinu. Þetta er tákn fyrir gosið og árið. Gosið kemur hér fram þvert á alla flokka.

Vilhelm Gunnarsson - mynd ársins 2021

Vilhelm hlaut einnig viðurkenningu fyrir fréttamynd ársins. Um hana segir dómnefnd: Uppstillt hópmynd af nýrri ríkisstjórn er klassískt myndefni en með útsjónarsemi og húmor að vopni fangar ljósmyndarinn afar skemmtilegt augnablik sem á sér stað rétt áður en hin eiginlega myndataka fer fram. Myndin er á vissan hátt lýsandi fyrir þá ringulreið sem hefur átt sér stað í samfélaginu og pólitíkinni og um leið minnir hún á að stjórnmálafólkið er fyrst og fremst einmitt það, fólk.

Vilhelm Gunnarsson - fréttamynd ársins 2021


Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem átti bestu íþróttamyndina. Um hana segir dómnefnd: Með því að beina athygli sinni frá hinu augljósa myndefni, þar sem sigurvegarar fagna ásamt stuðningsfólki sínu, nær ljósmyndarinn að stöðva tímann mitt í allri óreiðunni. Hann nær að frysta tilfinningaþrungna stund; rólegt, fallegt og einlægt augnablik sem vekur sterka samlíðan hjá áhorfandanum. Óvenjuleg íþróttamynd sem minnir sterkt á hve mikilvægan sess íþróttir skipa í lífi margra.

Kristinn Magnússon - íþróttamynd ársins

Páll Stefánsson átti portrett ársins. Í umsögn dómnefndar segir: Töff og óvenjuleg portrettmynd sem sker sig úr fjöldanum og gefur þáupplifun að lögmál séu brotin. Viðfangsefnið virðist svífandi en um leið svo fullkomið, eins og þyngdarlögmálið hafi gleymt að vinna sína vinnu. Afar áhugaverð innrömmun og myndbygging gerir þessa stílhreinu mynd að veislu fyrir augað. Kyrrlát en sterk orka í eftirminnilegri mynd.

Páll Stefánsson - portrettmynd ársins

Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari Fréttablaðsins átti umhverfismynd ársins. Um hana segir í umsögn dómnefndar: Eldgosið í Geldingadölum var eitt mest myndaða fyrirbæri ársins en með persónulegri nálgun á viðfangsefnið sýnir ljósmyndarinn okkur „hina hliðina“ á gosinu með mynd sem gæti nánast verið tekin hvar sem er á Íslandi. Við fyrstu sýn virðist myndin svarthvít en við nánari skoðun kemur í ljós að svo er ekki. Marglaga en einstaklega falleg og friðsæl mynd þar sem rammíslensk kyrrðin sogar áhorfandann til sín.

Sigtryggur Ari Jóhannsson - umhverfismynd ársins

Hörður Sveinsson fékk verðlaun fyrir tímaritamynd ársins. Um hana segir dómnefnd: Sjónrænt mjög áhugaverð mynd sem augljóst er að ljósmyndarinn og viðfangsefnið hafa lagt mikla vinnu í. Kraftmiklir litir og óvenjuleg formin skapa spennandi dýnamík og nánast hreyfingu í myndflötinn. Skemmtilega öðruvísi mynd.

Hörður Sveinsson - tímaritamynd ársins

Heiða Helgadóttir verðlaun fyrir myndaröð ársins og daglegt líf mynd ársins. Um daglegt líf mynd ársins segir í umsögn dómnefndar: Una Margrét Jónsdóttir og Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson hafa verið gift í tvo áratugi. Þau segjast afar sérvitur en í sameiningu fundu þau leið til að tala saman um erfiða hluti með því að láta fingurna tjá sig. Hlý og afar einlæg mynd úr íslenskum hversdagsleika. Ljósmyndarinn skapar traust og nær þannig að segja hjartnæma sögu sem ekki er sjálfsagt að viðfangsefnin vilji deila með öðrum. Þá er myndin skemmtilega innrömmuð og bætir umhverfið heilmiklu við söguna.

Heiða Helgadóttir - daglegt líf mynd ársins

Heiða fékk einnig verðlaun fyrir myndaröð ársins. Um myndaröðina segir dómnefndin: Með úthugsaðri nálgun nær ljósmyndarinn að vinna afar vel úr krefjandi aðstæðum. Myndefnið er sláandi, jafnvel óþægilegt í huga margra, en án þess að draga neitt undan nær ljósmyndarinn samt að skapa ró og jafnvel hlýju. Sagan útskýrir og sýnir hluti sem getur verið erfitt að horfa á en vekur þó ekki óhug. Myndirnar svala ákveðinni forvitni og færa áhorfandann inn í kringumstæður sem fæstir þekkja af eigin raun en gerir það með smekklegum og fagmannlegum hætti.

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 1

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 2

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 3

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 4

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 5

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 6

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 7

Heiða Helgadóttir - myndaröð ársins - mynd 8

Sjö dómarar völdu 102 myndir á sýninguna í ár úr 789 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Þeir völdu þar að auki sigurmynd í hverjum flokki og mynd ársins. Dómnefndina í ár skipuðu þau Aldís Pálsdóttir, Árni Torfason, Gísli Helgason, Hrund Þórsdóttir, Pjetur Sigurðsson, Sigríður Ella Frímannsdóttir og David Guttenfelder sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Blaðaljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1976 og starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýningin Myndir ársins hefur verið haldin síðan 1979 og er ein fjölsóttasta ljósmyndasýningin landsins ár hvert. Stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands í ár skipa Kristinn Magnússon (formaður), Eyþór Árnason, Hallur Karlsson, Heiða Helgadóttir, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Styrmir Erwinsson.

Hægt að nálgast bók með öllum myndum sýningarinnar í safnbúð Ljósmyndasafns Reykjavíkur og á Blurb.com.

Sýningin verður opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur frá 2. apríl til 29. maí.