Að finna fyrir lífinu - Átök milli dauðleikans og ódauðleikans í ljósmyndum

Fimmtudaginn 20. desember kl. 12:05 verður Sigrún Sigurðardóttir ljósmyndafræðingur með fyrirlestur á vegum FÍSL, Félags íslenskra samtímaljósmyndara, í Þjóðminjasafni Íslands. Yfirskrift fyrirlestrarins er: „Að finna fyrir lífinu. Átök milli dauðleikans og ódauðleikans í ljósmyndum.”

Bandaríski menningarfræðingurinn Susan Sontag sagði eitt sinn að allar myndir væru í vissum skilningi það sem kalla mætti memento mori eða áminning um dauðleika, hvort sem það er dauðleiki augnabliksins eða dauðleiki manneskjunnar. Ljósmyndin tengir saman lífið, dauðann og ódauðleikann. Hún skapar minningar, viðheldur minningum og býr til nýjar. Í fyrirlestrinum skoðar Sigrún hvernig ólíkir ljósmyndarar hafa tekist á við þessi viðfangsefni og verður sjónum beint sérstaklega að verkum íslenskra samtímaljósmyndara. Útgangspunkturinn er ekki aðeins dauðinn sjálfur heldur ekki síður hvernig dauðinn kallar stöðugt á andstæðu sína, lífið sjálft, og lætur okkur þannig finna fyrir og vera meðvituð um lífið hér og nú.

Fyrirlesturinn verður brotinn upp með pallborðsumræðum við þau Báru Kristinsdóttur, Einar Fal Ingólfsson og Grétu S. Guðjónsdóttur sem öll hafa tekist á við ástvinamissi, minningar og sorgarúrvinnslu í ljósmyndum sínum. Áhorfendum gefst auk þess tækifæri til að taka þátt í umræðum. 

Frekari upplýsingar í fisl@fisl.is eða hjá Pétri Thomsen í síma 899-801