Erindi um kosningarnar í BNA

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í samstarfi við bandaríska sendiráðið býður til opins fundar með Dr. James A. Thurber, mánudaginn 5. nóvember kl. 12 í Lögbergi 101. Dr. Thurber er prófessor við American University í Washington D.C. og forstöðumaður Center for Congressional and Presidential Studies.

Í erindi sínu mun Dr. Thurber skoða þau málefni sem helst standa upp úr í lok kosningabaráttunnar og spá í spilin degi fyrir kosningarnar vestanhafs.

Meðal þess sem Thurber veltir upp er hvort Obama takist að halda forsetaembættinu eða von sé á nýjum íbúum í Hvíta húsið? Þá spyr hann hvaða málefni hafa staðið upp úr í kosningabaráttunni, og hversu miklu máli frammistaða í kappræðum skipti í raun? Hversu erfitt er að vinna annað kjörtímabil fyrir Obama í ljósi bágs efnahagsástands vestanhafs?

Dr. James A. Thurber er einn þekktasti fræðimaður Bandaríkjanna á sínu sviði. Hann hefur skrifað fjölda bóka og meira en 75 fræðigreinar um bandaríska þingið, kosningar og kosningaframboð. Hann er tíður gestur fjölmiðla vestanhafs, vinsæll fyrirlesari víða, þar á meðal hér á landi en hann hélt erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar í tengslum við kosningarnar 2008.

Fundurinn fer fram á ensku og fundarstjóri er Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Allir eru velkomnir.