EFJ: Fordæmir lokun netsíðna í Tyrklandi

Evrópusamband blaðamanna (EFJ)  sendi í vikunni frá sér yfirlýsingu þar sem fordæmd er sú „gerræðislega“ ákvörðun dómara í undirrétti í Ankara í Tyrklandi að loka fyrir aðgang að 136 vefsíðum og samfélagsmiðlareikningum.   Þessi ákvörðun dómarans, Hasan Demirtas, var tekin um miðjan júlí sl. og með því var skrúfað fyrir mikilvægar fréttaveitur svo sem Bianet og Gaxete Fersude. Var þetta gert undir formerkjum þjóðaröryggis og vísað til sérstakrar greinar þar að lútandi í fjarskiptalögum.  Með þessari aðgerð dómsvaldsins var aðgangur að um 200 þúsund fréttum á Bianet heftur en þar hefur verið fréttaþjónusta frá því í nóvember 2000.

„Þessi umfangsmikla ritskoðun er alger geðþóttaákvörðun og fullkomlega óréttlætanleg,“ segir  Ricardo Gutiérrez, framkvæmdastjóri EFJ. „ Við krefjumst þess að þessi gerræðislega ákvörðun dómsvaldsins verðu endurskoðuð nú þegar,“ segir hann enn fremur.