EFJ: Tryggja þarf sjálfstæði LRT

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hefur sent litháíska þinginu áskorun um að það tryggi fullt sjálfstæði ríkisútvarpsins í landinu, LRT.  Í síðustu viku sendi framkvæmdastjóri LRT, Monika Garbaciauskaite, frá sér bréf þar sem áhyggjum er lýst vegna fyrirhugaðra breytinga á lagaumgjörð stofnunarinnar.  Frumvarp mun koma til umræðu í þinginu síðar í þessari viku þar sem breytingar á lagaramma verða til umræðu, en þær breytingar eru af mögrum taldar þrengja að sjálfstæði stofnunarinnar.  Blaðamannafélagið í Litháen, formaður stjórnar LRT, Evrópusamband sjónvarpsstöðva (EBU), hafa öll lýst því yfir að fyrirhugaðar breytingar muni innleiða pólitíska stýringu á stofnuninni og stefna sjálfstæði hennar í voða.

„Stjórnarflokkurinn í Litháen ætti að skilja að ríkið hefur ríkar skyldur til að  tryggja fjölræði og fjölbreytni í þjónustu á ljósvakanum með því að setja löggjöf sem tryggir sjálfstæði LRT frá pólitískum afskiptum og yfirráðum,“ segir Ricardo Gutiérrez framkvæmdastjóri EFJ og hvetur í leiðinni þingið til að tryggja Litháum fjölmiðlun, sem standist evrópska mælikvaða.