„Enginn glæpur eins alvarlegur og sá að segja frá“

Aðalsteinn Kjartansson
Aðalsteinn Kjartansson

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni og varaformaður Blaðamannafélags Íslands sem lögreglan á Norðurlandi eystra gaf, ásamt þremur öðrum blaðamönnum, í febrúar síðastliðnum stöðu sakbornings í fordæmalausri sakamálarannsókn, birti í dag ítarlega greinargerð um málið eins og það horfir nú við honum eftir að hafa fengið afhent rannsóknargögn í málatilbúnaðinum gegn honum, en það var gert í kjölfar yfirheyrslu lögreglunnar yfir honum í lok ágúst. Umfjöllun Aðalsteins kallast á við umfjöllun „sam-sakbornings“ hans Þórðar Snæs Júlíussonar, sem birti sambærilega greinargerð um málið í Kjarnanum í morgun.

Niðurstaða Aðalsteins er mikill áfellisdómur yfir vinnubrögðum lögreglunnar á Norðurlandi eystra, en hún er í hnotskurn þessi: 

„Svo virðist vera að enginn glæpur sé jafn alvarlegur og sá að segja frá. Það á ekki [að] leyfa blaðamönnum að komast upp með það.“ 

Aðalsteinn upplýsir í greininni að hann sé „enn á því að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort þessi leiðangur lögreglunnar nyrðra sé lögmætur". Hann reyndi að fá íslenska dómstóla til að skera úr um það, en eftir að Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði að málatilbúnaðurinn væri ólögmætur ákvað Landsdómur að ógilda dóm lægra dómstigsins og vísa málinu frá. Hæstiréttur hafnaði því að taka málið fyrir, því það hefði þegar fengið meðferð á tveimur dómstigum. „Efnislega umfjöllun og mat á lögmæti lögreglurannsóknarinnar var því ekki hægt að fá hjá dómstólum,“ skrifar Aðalsteinn. Hann hafi því falið lögmanni sínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu fjalli efnislega um málið. „Slíkt mál hefur því verið höfðað.“