Fólk óskast í málefnavinnu

Frá nýyfirstöðnu málþingi um frelsi fjölmiðla
Frá nýyfirstöðnu málþingi um frelsi fjölmiðla

Blaðamannafélagið hefur sett á fót málefnahópa og þess að efla faglegt starf, jafnt inn á við í félaginu, sem og út á við. Óskum við hér með eftir áhugasömu fólki til að taka þátt í því starfi og hvetjum sem flesta til að leggja félaginu lið. Meðal þeirra málefnahópa sem stofnað hefur verið til er ritstjórn press.is, hópur sem vinna á að endurskoðun siðareglna, hópur um viðburði og kynningarmál og loks hópur sem fjallar um framtíð félagsins.

- Press.is

Félagsmenn hafa kallað eftir aukinni faglegri umræðu á press.is. Því er óskað eftir fólki sem hefur áhuga á að skrifa um blaðamennsku, fjölmiðla og hvaðeina því tengt á vef félagsins, press.is. Þá fer hlaðvarp BÍ fljótlega í loftið og þeir sem hafa áhuga á að leggja því lið eru hvattir til að bjóða sig fram til þess.

- Siðareglur

Nauðsynleg endurskoðun á siðareglum Blaðamannafélagsins er fyrir dyrum og mikilvægt að breið samstaða náist um þær breytingar sem farið verður í, verði það niðurstaðan. Því er áríðandi að ná saman fjölbreyttum hópi fólks sem áhuga hefur á að fara í þá vinnu.

- Viðburðir og kynningarmál

Eitt af stóru verkefnunum fram undan er að efla faglega umræðu innan félagsins og auka vitund og virðingu fyrir stéttinni út á við. Ein leiðin til þess er að bjóða upp á fjölbreytta viðburði á vegum félagsins, stærri sem minni. Þá gæti þessi hópur jafnframt sett stefnu um samfélagsmiðlanotkun félagsins og haft umsjón með þeim fyrir hönd félagsins.

- Framtíð BÍ

Eitt af því sem nauðsynlegt er að ráðast í er umræða um framtíð félagsins. Hvernig félag viljum við að Blaðamannafélagið sé? Hverju þarf að breyta í starfseminni? Viljum við fjölga félagsmönnum og þá hvernig? Viljum við sérdeildir fyrir ákveðna faghópa innan félagsins og þá hvers vegna? Þetta og margt fleira þurfum við að ræða og móta okkur stefnu um. Þá gæti þessi hópur einnig unnið með viðburða- og kynningarhópi um hvernig félagið geti unnið að því að auka virðingu fyrir stéttinni og efla vitund um það hvað felst í starfi blaðamanns og fyrir hvað fjölmiðlar standa, hver munurinn sé á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum til að mynda, svo fátt eitt sé nefnt.

Hægt er að skrá sig hér Skráningareyðublað