Tillögur um aukið tjáningar-, upplýsinga-, og fjölmiðlafrelsi

Mynd: Stjórnarráðið
Mynd: Stjórnarráðið

„Aðalmálið í öllum frumvörpunum er rýmkun tjáningarfrelsis.“  Þetta er haft eftir  Eiríki Jónssyni, prófessor og formanni  nefndar forsætisráðherra um um umbætur á sviði tjáningarfrelsis,  á mbl.is, en nefndin kynnti tillögur sínar á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu í dag. Afurðir nefndarinnar er að finna í fimm lagafrumvörpum, og einu undirbúningsskjali þar sem lagðar eru til breytingar á löggjöf sem stuðla á að auknu tjáningar- , upplýsinga og fjölmiðlafrelsi.  Þessi frumvörp snerta í fyrsta lagi ærumeiðingar, í öðru lagi hatursorðræðu, í þriðja lagi þagnarskyldu opinberra starfsmanna, í fjórða lagi ábyrgð hýsingaraðila og í fimmta lagi varðveislu og geymd gagna. Sjötta tillaga hópsins felst í undirbúningsskjali fyrir löggjöf um vernd uppljóstrara.

Nefninga skipuðu: Eiríkur Jónsson prófessor, formaður;  Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður;  Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI);  Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands;  Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður; Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu; Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu; Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta og menningarmálaráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar er Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu.

Hér á eftir má sjá yfirlit og hlekki á afurðir nefndarinnar:

1. Frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga (afnám refsinga vegna ærumeiðinga). Með frumvarpinu er lagt til að refsingar vegna ærumeiðinga verði afnumdar. Auk þess verði ómerking ummæla, sem úrræði vegna ærumeiðinga, afnumin, sem og núgildandi heimild til þess að dæma fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms. Í stað ærumeiðingarákvæða hegningarlaga komi ný stofnlög þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum. Gert er ráð fyrir tvenns konar úrræðum, miskabótum og bótum fyrir fjártjón. Við beitingu þeirra skuli höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá inniheldur frumvarpið ábyrgðarleysisástæður, sem leysa undan ábyrgð í tilteknum tilvikum, en ákvæðum frumvarpsins er ætlað að ná utan um helstu sjónarmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu og stuðla að því að réttarframkvæmd verði til samræmis við þau sjónarmið. Auk þess felst m.a. í frumvarpinu að hin sérstaka æruvernd sem opinberir starfsmenn hafa notið verði felld úr gildi, sem og hin sérstaka æruvernd sem erlend ríki, fáni þeirra, þjóðhöfðingi o.fl. hafa notið.

2.  Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu). Meginmarkmið frumvarpsins er að þrengja 233. gr. a almennra hegningarlaga, sem leggur refsingu við hatursorðræðu, eftir rýmkun sem varð á ákvæðinu með lögum nr. 13/2014. Í frumvarpinu felst tillaga að rýmkun tjáningarfrelsis með því að gera kröfu um nánar tiltekinn grófleika eða alvarleika til þess að tjáning varði refsingu sem hatursorðræða. Lagt er til að gerð verði krafa um að háttsemin sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun. Mun þannig meira þurfa til en nú er svo að tjáning varði refsingu samkvæmt ákvæðinu.

3. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum (tjáningarfrelsi og þagnarskylda). Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrar reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í sérstökum kafla sem bætist við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Frumvarpið felur í sér meginreglu um að opinberir starfsmenn njóti tjáningarfrelsis. Það verður aðeins takmarkað þegar þörf krefur og þá samkvæmt skýrum og fyrirsjáanlegum lagaákvæðum. Með ákvæðum frumvarpsins um efni þagnarskyldu er leitast við að gera skýrara en nú er til hvaða upplýsinga hún taki, en slíkt er mikilvæg forsenda tjáningarfrelsis. Þá felur frumvarpið í sér að miklum fjölda þagnarskylduákvæða verði breytt í því skyni að fækka þeim og samræma. Frumvarpið hefur einnig að geyma nýmæli um það hvenær stjórnvöldum er heimilt að miðla persónuupplýsingum sem þagnarskylda ríkir um til annarra stjórnvalda.

4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, ásamt síðari breytingum (takmarkaðri ábyrgð hýsingaraðila). Með frumvarpinu er stefnt að rýmkun tjáningarfrelsis með því að draga úr ábyrgð hýsingaraðila og skyldu þeirra til að taka niður gögn. Verði frumvarpið að lögum verður meginreglan um að slíkir aðilar beri ekki ábyrgð á gögnum sem þeir hýsa ekki lengur bundin því skilyrði að þeir fjarlægi eða hindri gögn eftir að hafa fengið tilkynningu um meint brot á ákvæðum höfundalaga, heldur þarf að koma til bein vitneskja þeirra um að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar.

5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (afnám gagnageymdar o.fl.). Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar að skyldubundin gagnageymd fjarskiptafyrirtækja verði afnumin og hins vegar að skilyrði fyrir aðgangi lögreglu/ákæranda að gögnum fjarskiptafyrirtækja verði hert. Þessar breytingar eru lagðar til í þágu friðhelgi einkalífs og persónuverndar, auk þess sem þær eru jákvæðar fyrir tjáningarfrelsi, sbr. þá hættu sem heimildarmönnum blaðamanna og afhjúpendum getur stafað af eftirliti með hverskyns rafrænum samskiptum.

Þá skilaði nefndin einnig af sér eftirfarandi undirbúningsskjali lagasetningar:

6.            Áform um lagasetningu um vernd uppljóstrara (PDF). Í skjalinu eru kynnt áform um lagasetningu er hafi það markmið að á Íslandi gildi skýr löggjöf um vernd uppljóstrara sem tekur mið af ábendingum alþjóðastofnana og fordæmum þeirra nágrannaríkja sem fela í sér bestu framkvæmdina á sviðinu.