Staðreyningarþjónustur sameinast um fagleg viðmið

Nýjar grundvallarreglur um fagleg viðmið (Code of professional standards) staðreyningarþjónustu voru kynntar á blaðamannafundi í Brussel í vikunni, þar sem stjórn hinna nýju Evrópusamtaka, The European Fact-Checking Standards Network (EFCSN), kynnti sig. 

Hátt í 50 staðreyningarþjónustur - eins og við kjósum hér að nefna það sem á ensku nefnist fact-checking organizations - hafa undir merkjum EFCSN unnið saman að því undanfarið ár eða svo að semja grundvallarreglur um fagleg viðmið fyrir þessa mikilvægu starfsemi í baráttunni gegn upplýsingaóreiðu. Reglurnar lýsa þeim viðmiðum sem þeir sem gefa sig út fyrir að sinna staðreyningarþjónustu þurfa að uppfylla til að hljóta vottun sem áreiðanleg, og aðild að hinu nýja evrópska samstarfsneti. Með aðild að EFCSN er vonast til að almenningur geti auðveldlega áttað sig á því hverjir sem leggja stund á slíka þjónustu geri það með óháðum hætti, á grunni siðferðilegra viðmiða og í þágu almannaheilla. 

„Gegnsæi er varnarskjöldur okkar gegn tortryggni, samvinna vopn okkar gegn upplýsingaóreiðu,“ sagði Clara Jiménez Cruz, stjórnarformaður EFCSN og framkvæmdastjóri spænsku steðreyningarþjónustunnar Maldita.es, á blaðamannafundinum. Með þessum orðum vísaði hún til þeirra ströngu viðmiða sem liggja til grundvallar starfseminni, og þess sterka samstarfs sem „staðreyningarsamfélagið“ (the fact-checking community) í álfunni hefur sýnt á liðnum árum og hefur nú leitt til stofnunar EFCSN. 

Meðal þeirra sem tóku þátt í pallborðsumræðum á fundinum í Brussel var búlgarski Evrópuþingmaðurinn Eva Maydell. Hún varaði í máli sínu við því sem hún kallaði „farsótt upplýsingaóreiðu“; það yki henni þó bjartsýni að fagfólk í staðreyningu frétta og fullyrðinga í opinberri umræðu gætu „bólusett almenning með framlagi sínu og baráttu fyrir fjölmiðlalæsi fólks.“  Sophie Eyears, stjórnandi hjá Meta, eignarhaldsfélagi Facebook, fullyrti að „borin hefðu verið kennsl á yfir 190 milljón tilfelli rangra eða misvísandi upplýsinga [á Facebook], þökk sé skipulögðu samstarfi við staðreyningarþjónustur.“ 

Meðal annarra sem þátt tóku í pallborðsumræðunum voru Krisztina Stump frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Tommaso Canetta (Pagella Politica, Ítalíu), David Schraven (CORRECTIV, Þýskalandi), Vincent Couronne (Les Surligneurs, Frakklandi), Gülin Çavuş (teyit, Tyrklandi) og Thomas Hedin (TjekDet, Danmörku). 

Botninn í málþingið sló Evrópuþingkonan Delphine Colard. Hún lagði áherzlu á markmið Evrópusambandsins um stuðning við lýðræði og sannleiksást, og sagði að „það stríð upplýsingaóreiðu sem háð er af hálfu rússneskra stjórnvalda sýnir hve hættuleg upplýsingaóreiða og áróður eru“. Hún bætti við að þeir sem annist staðreyningarþjónustu væru „eins og íþróttadómarar sem tryggðu að farið sé eftir settum leikreglum“.