Fjölmiðlafrelsi: Guðlaugur kynnir yfirlýsingu Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra

Í dag og á morgun fer fram alþjóðleg ráðstefna í London um fjölmiðlafrelsi og öryggi blaðamanna. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Breta og Kanadamanna og eru gestgjafar Chrystia Freeland utanríkisráðherra Kanada og Jeremy Hunt utanríkisráðherra Breta. Hugmyndin er að beina kastljósinu að mikilvægi fjölmiðlafrelsi og öryggi blaðamanna og finna leiðir til að stöðva tilraunir til að skerða þetta frelsi og starfsöryggi.  Guðlaugur Þór Þórðarson sækir ráðstefnuna af Íslands hálfu, en fjölmargir áhrifamiklir stjórnmálamenn, blaðamenn og fræðimenn sækja ráðstenuna. Ráðstefnan skiptist í fjögur megin þemu.

1)      Vernd og saksókn vegna árása á blaðamenn, og viðbrögð við aðgerðaleysi.
2)      Lagarammi og almenn umgjörð fjölmiðla í einstökum löndum.
3)      Efling trausts til fjölmiðla og barátta gegn upplýsingamengun.
4)      Sjálfbærni í fjölmiðlareksri.

Í dag var kastljósi ráðstefnunnar beint að því að skilgreina vandann og þau verkefni sem blasa við  en á morgun er hugmyndin að reyna að finna lausir og ákveða til hvaða aðgerða þarf að grípa.

Á morgun, fimmtudag mun Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands flytja yfirlýsingu fyrir Íslands hönd  í ráðstefnuhluta þar sem ráðherrar og talsmenn einstakra ríkja flytja sambærilegar yfirlýsingar. Ráðstefnuþátturinn þar sem yfirlýsing Ísland verður flutt ber yfirskrift um öryggi og vernd blaðamanna.

Hugmyndin er að ráðstefnan samþykki síðan sameiginlega yfirlýsingu og að henni verði fylgt eftir á komandi mánuðum og árum.  Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og áhugafélög um tjáningarfrelsi hafa fylgst grant með þessu framtaki og fagnað því, en telja þó mikilvægt að minna á að þá fyrst öðast þessu umræða og þetta framtak raunverulegt gildi að þeim sé fylgt eftir með aðgerðum. Þannig funduðu þessir aðilar í gær, í aðdraganda ráðstefnunnar, og samþykktu að setja fram þrjár kröfur til ráðstefnuhaldara og þeirra ráðamanna sem þar koma saman til að ræða um fjölmiðlafrelsi. Þessar kröfur eru í fyrsta lagi að fangelsuðum blaðamönnum verði sleppt; í öðru lagi að stöðvaðar verði drápárásir og ofsóknir gegn blaðamönnum; og í þriðja lagi að öll morð á blaðamönnum verði rannsökuð og morðingjarnir saksóttir.    Þessi alþjóðlegi hópur, IFJ og tjáningarfrelsissamtak, krefst þess einnig að öll ríki axli ábyrgð á þessum ofsóknum bæði hjá sjálfum sér og þeirra samstarfsríkjum, en í sumum þeirra ríkja sem fulltrúa eiga á ráðstefnunni eru blaðamenn í fangeslum eða þá að þar er ekki búið að upplýsa morðmál sem tengjast blaðamönnum.

Sjá myndband sem tengist ráðstefnunni hér

Sjá hlekk á síðu ráðstefnunnar hér