Formaður BÍ: Ánægjulegt og algerlega nauðsynlegt

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ

"Það er ánægjuefni og raunar algerlega nauðsynlegt að endurskoða fjölmiðlalögin og hlutverk fjölmiðlanefndar samkvæmt þeim," segir Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélag Íslands aðspurður um viðbrögð við yfirlýsingu menntamálaráðherra um að fjölmiðlalög verði endurskoðuð vegna gagnrýni BÍ á túlkun Fjölmiðlanefndar á 26. gr laganna.  "Fjölmiðlanefnd hefur farið langt út fyrir valdsvið sitt á mjög hæpnum lagalegum forsendur, svo ekki sé meira sagt.  Opinber nefnd á vegum stjórnvalda getur ekki haft hlutverk hvað varðar túlkun á mörkum tjáningarfelsisins, til þess höfum við dómstóla, allra síst ef henni er einnig ætlað hlutverk hvað varðar úthlutun fjármuna til fjölmiðla.  Það er svo augljóst að það ætti ekki að þurfa að leiða það í orð.  Komi til endurskoðunar fjölmiðlalagana mun Blaðamannafélagið leggja sitt af mörkum til þess að endurskoðunin miði að því að styrkja tjáningarfrelsið í landinu, en ekki leggja stein í götu þess,“ segir Hjálmar ennfremur.