Formaður BÍ: Vísar á bug reiknikúnstum SA

„Við höfum talað fyrir daufum eyrum í 10 mánuði þannig að okkur er nauðugur einn kostur,“ sagði Hjálmar Jónsson formaður BÍ m.a. í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hjálmar var þar í viðtali vegna kjaradeilu blaðamanna við útgefendur sem eru innan vébanda SA.  Hjálmar var m.a. spurður um þá fullyrðingu framkvæmdastjóra SA í Morgunblaðinu í morgun að BÍ stefni að því að rjúfa þann ramma sem settur hafi verið upp í Lífskjarasamningunum svonefndu. Hjálmar vísaði  því staðfastlega á bug og sagði að vissulega gætu menn verið í einhverjum æfingum og reiknað sig fram og aftur til að fá einhverjar niðurstöður sem þeim þóknaðist. Hins vegar mætti einfaldlega benda á í þessu sambandi, að í kröfugerð BÍ væri t.d. ekki krafa um styttingu vinnutíma og sem yrði auðvitað að fylgja með í svona slíkum útreikningum,  en þá yrði útkoman einfaldlega önnur. Hann taldi það sæta furðu að SA kysi að túlka málin og snúa út úr með þessum hætti og tefla þannig í tvísýnu stöðu aðildarfyrirtækja sinna, sem vissulega væru, eins og fjölmiðlar almennt í landinu, að takast á við erfiða rekstrarstöðu.  Hann benti á að þegar hafi tekist samningar um lámarks kjarabætur við Birting og Kjarnann, sem segja mætti að væru viðspyrna fyrir kjör og stöðu blaðamennskustarfsins almennt, en ástandið hafi verið orðið óþolandi fyrir fagstétt sem bera á uppi upplýsingakerfi lýðræðisins. Laun blaðamanna sagði formaðurinn vera mjög slök og engri háskólamenntaðri stétt væri boðið upp á annað eins.

Hjálmar sagðist telja að það væri „massíf samstaða“ meðal blaðamanna, en stefnt er að því að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir í dag, miðvikudag, sem munu felast í eins konar skæruvekföllum þannig að þungi og áhrif þeirra fari sigvaxandi næstu fjórar til fimm vikur.  Hugmyndin væri þá sú, að loka fyrir hluta af starfsemi fjölmiðla um leið og tryggt væri að nauðsynlegt flæði ritstýrðra upplýsinga í þjóðfélaginu væri til staðar.

Hlusta má á viðtalið (það hefst á 25 mínútu) við Hjálmar hér