Frá formanni BÍ: Upplýsingum SA fagnað

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ

Pistill frá Hjálmari Jónssyni, formanni BÍ:

Ég þakka Samtökum atvinnulífsins, og framkvæmdastjóra þeirra sérstaklega, fyrir það að staðfesta með afgerandi hætti á heimasíðu sinni hversu léleg laun blaðamanna rauverulega eru.  Upplýsingar þar um regluleg laun sýna og sanna að blaðamenn eru langlægsta vaktavinnustéttin sem þar er tilgreind  Það liggur einnig fyrir að laun blaðamanna ná ekki meðallaunum í landinu, samkvæmt tölum Hagstofunnar, svo nemur tugum þúsunda. Það væri svo sem eftir öðru í þessum samningaviðræðum að Samtök atvinnulífsins hefðu ekki áttað sig því, þrátt fyrir sjö mánaða samningaviðræður og fjölda bókaðra funda hjá ríkissáttasemjara, að blaðamenn sinna starfi sínu á öllum tímum sólarhrings, en ekki bara á skrifstofutíma?!

Það liggur raunar fyrir í tilboði SA frá 26. september, sem birt hefur verið á heimasíðu þeirra, og ég birti hér nákvæmlega eins og ég fékk það afhent yfir borðið sællar minningar, að þeir héldu að þeir væru að semja við iðnaðarmenn, samanber tölulið 3 undir heitinu Framkvæmdaáætlun!  Það styrkir enn frekar að þeir héldu að þeir væru fastir í einhverri lúpu samningaviðræðna við iðnaðarmenn að í inngangi að bókun um launakerfi er vísað í 5. kafla kjarasamningsins.  5. kafli kjarasamnings BÍ fjallar um handritalesara!

Svona vinnubrögð og/eða tilboð eftir sex mánaða viðræður hefðu sett heilu starfsgreinarnar á hliðina hér á árum áður þegar enn var eitthvert salt í blóðinu á Íslendingum, enda slitum við blaðamenn viðræðum.  Virðing Samtaka atvinnulífsins, fyrir því að hér er lífsviðurværi fólks undir, er engin!!!

Sýnu alvarlegast þó er að tilboð SA er miklu lægra en samið hefur verið um við alla aðra í þessu samfélagi og með því er brotið blað í sögu kjarasamninga hér landi.  Það er skjalfest í tilboðinu og helgast af því að lækkun deilitölu 173,36 í mánaðarlaun í 160, sem er vinnutímastyttingin í hnotskurn, er þegar fyrir hendi í kjarasamningum blaðamanna og hefur verið í áratugi.  Blaðamenn eru því ekki að fá neitt út úr því meðan þessi breyting í samningum iðnaðarmanna gerði það að verkum, að kröfu SA, að taka þurfti upp eftirvinnu á nýjan leik, eftir áratuga hlé.  Það aftur svo nær felldi samningana í atkvæðagreiðslum vegna hagsmuna þeirra sem hafa hluta tekna sinna af yfirvinnu.  Ef samningur BÍ við Birting og Kjarnann er skoðaður, sem finna má á heimasíðu BÍ, sést að þar eru engin ákvæði um vinnutímastyttingu.  Kostnaðaraukinn sem óumflýjanlega fylgir því að stytta vinnuvikuna um 8,33% er settur inn í taxtana til þess að verja lökustu kjörinn og þó ekki nema að hluta til.

Ég sagði stundum við börnin mín, og segi stundum enn við lítla hrifningu, að alveg sama hversu oft maður segi að 2+2 séu 5, verði þeir eftir sem áður 4, mín aðferð til að kenna þeim muninn á staðreyndum og óskhyggju! Ég sagði líka í fjölmiðlum í gær að skynsamt fólk leiti ekki að vandræðum!  Nú hafa 62,1% blaðamanna sem starfa á þessum miðlum tekið þátt í atkvæðagreiðslu um vinnustöðvanir og 83,2% goldið því atkvæði sitt.  Skilaboðin eru skýr! Væri ekki ráð að vinna út frá því?

 

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ