Fundað með umboðsmanni Alþingis

Skúli Magnússon.  Aðsend mynd.
Skúli Magnússon. Aðsend mynd.
Fulltrúar úr stjórn Blaðamannafélags Íslands áttu í vikunni fund með umboðsmanni Alþingis, Skúla Magnússyni, í kjölfar þess að félagið sendi inn erindi til embættisins þar sem umboðsmaður er hvattur til að hefja frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu lögregluembættisins á Norðurlandi eystra. 
 
Í ábendingunni til umboðsmanns, sem Flóki Ásgeirsson lögmaður skrifaði fyrir hönd BÍ, er mikill áfellisdómur felldur yfir vinnubrögðum lögreglunnar á Akureyri við rannsókn embættisins á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs, sem beint er gegn fjórum blaðamönnum. Þeir – Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Þórður Snær Júlíusson og Þóra Arnórsdóttir – hafa vegna téðrar rannsóknar haft réttarstöðu sakbornings í meira en átta mánuði, eða frá því í febrúar á þessu ári. Og enda þótt lögfræðiráðgjafar Blaðamannafélagsins telji nær útilokað að rannsóknin muni leiða til ákæru, hvað þá sakfellingar, þá eru blaðamennirnir fjórir enn engu nær um hvenær réttarstaða þeirra sem sakborninga muni taka enda. 
 
Í ábendingunni til umboðsmanns er rakið meðal annars, að sú ráðstöfun að gefa blaðamönnum réttarstöðu sakbornings sé eitt og sér íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð sem sé til þess fallin að grafa undan trúverðugleika viðkomandi blaðamanna og að fæla aðra blaðamenn frá því að fjalla um þau mál sem fréttaumfjöllun sú snýst um, sem rannsókn lögreglu snýr að. Enda segir orðrétt í ábendingunni: „Slík viðbrögð lögreglu við eðlilegri umfjöllun fjölmiðla um málefni sem ljóslega eiga erindi við almenning eru að mati félagsins hvorki í samræmi við hlutverk fjölmiðla né lögreglu í lýðræðisríki og ekki samrýmanleg þeirri vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“ Á þetta lögðu fulltrúar BÍ áherslu á fundinum með umboðsmanni.