Haraldur Sveinsson: Kveðja frá BÍ

Útför Haraldar Sveinssonar fyrrum framkvæmdastjóra Morgunblaðsins verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag kl 11. Hálmar Jónsson, minnist hans í kveðju frá BÍ.

 

Kveðja frá Blaðamanna­fé­lagi Íslands

Fall­inn er frá í hárri elli Har­ald­ur Sveins­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Morg­un­blaðsins og formaður stjórn­ar Árvak­urs, út­gáfu­fé­lags þess, um ára­tuga­skeið.

Þegar ég hóf störf á Morg­un­blaðinu snemma á ní­unda ára­tugn­um var Har­ald­ur fram­kvæmda­stjóri þar og var það lengst af því tíma­bili sem ég starfaði þar, sem spannaði ald­ar­fjórðung þegar upp var staðið. Í mín­um huga var Har­ald­ur fyr­ir­mynd at­vinnu­veit­enda og hvernig á að nálg­ast það vanda­sama hlut­verk. Morg­un­blaðið á þess­um tíma var ein­stak­ur vinnustaður og ég hef ekki hitt gaml­an vinnu­fé­laga, sama úr hvaða starfs­grein, sem ekki er sama sinn­is. Har­ald­ur átti ekki lít­inn þátt í því. Orðum hans mátti treysta full­kom­lega. Maður upp­lifði sann­an liðsanda sem starfsmaður á Morg­un­blaðinu og hafði það á til­finn­ing­unni að vera hluti af heild og að ef eitt­hvað bjátaði á myndi vinnustaður­inn standa með manni. Eft­ir höfðinu dansa lim­irn­ir. Þar til viðbót­ar upp­lifði ég það aldrei þannig að Morg­un­blaðið væri rekið í hagnaðarskyni fyrst og fremst, svo ein­kenni­lega sem það kann að hljóma í eyr­um nú­tím­ans. Metnaður­inn fyr­ir Morg­un­blaðinu og hlut­verki þess í ís­lensku sam­fé­lagi var alltaf í for­grunni, þó það sé auðvitað grunn­for­senda alls rekstr­ar að tekj­ur séu um­fram gjöld. Sann­kölluð for­rétt­indi að hafa fengið að starfa á Morg­un­blaðinu á þessu tíma­bili.

Ég hygg að þegar Morg­un­blaðið var fyr­ir­ferðarmest á ís­lensk­um fjöl­miðlamarkaði hafi um þriðjung­ur fa­stráðinna fé­laga í Blaðamanna­fé­lagi Íslands starfað þar. Eðli­lega var oft tek­ist á um kaup og kjör, en þegar ég kom að því borði var Har­ald­ur ekki leng­ur í for­ystu fyr­ir samn­inga­nefnd Fé­lags ís­lenskra prentiðnaðar­ins. Gaml­ir samn­inga­nefnd­ar­menn Blaðamanna­fé­lags­ins segja mér hins veg­ar að hann hafi verið ein­stak­lega rétt­sýnn og viðræðugóður, þó hann héldi fram sín­um málstað af ein­urð. Ég kynnt­ist hon­um hins veg­ar í stjórn Líf­eyr­is­sjóðs blaðamanna, þar sem hann var formaður um ára­tuga­skeið. Ég held að Har­ald­ur hafi litið þannig á að það væri ein af skyld­um vinnu­veit­enda að tryggja starfs­mönn­um sín­um fram­færslu eft­ir að starfs­deg­in­um lyki. Í stjórn líf­eyr­is­sjóðsins var starfs­and­inn ein­stak­lega góður. Þar höfðu all­ir það sam­eig­in­lega mark­mið að tryggja ávöxt­un líf­eyr­is­sjóðsins sem best með sem minnstri áhættu og aldrei kom til umræðu að stjórn­ar­laun væru greidd fyr­ir starfið þar. Fólk sem sótt­ist eft­ir trúnaðar­störf­um átti að gera það vegna áhuga á mál­efn­inu og ekki hafa af því per­sónu­leg­an ávinn­ing. Reynd­in var svo sú að þegar Líf­eyr­is­sjóður blaðamanna sam­einaðist Líf­eyr­is­sjóði versl­un­ar­manna um alda­mót­in 2000 vegna ákvæða laga um lág­marks­stærð líf­eyr­is­sjóða, var hægt að auka rétt­indi sjóðfé­laga um fjórðung vegna sterkr­ar eigna­stöðu sjóðsins.

Að leiðarlok­um þakk­ar Blaðamanna­fé­lag Íslands Har­aldi fyr­ir sam­fylgd­ina um ára­tuga­skeið og biður fjöl­skyldu hans Guðs bless­un­ar. 

Hjálm­ar Jóns­son, formaður BÍ.