Hinn margverðlaunaði Claas Relotius

Claas Relotius var heiðraður sem CNN blaðamaður ársins.
Claas Relotius var heiðraður sem CNN blaðamaður ársins.

Óhætt er að segja að um fátt sé meira rætt í fjölmiðlaheiminum en fréttafalsanir þýska blaðamannsins Claas Relotius og hefur kastljósið einkum beinst að skrifum hans fyrir þýska tímaritið Der Spiegel. Hann starfaði þó sem sjálfstæður blaðamaður við fjölda blaða og má þar nefna; Cicero, Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung, Neue Zürcher Zeitung, Financial Times Deutschland, taz, Die Welt, SZ-Magazin, Die Weltwoche, Zeit Online og Reportagen.

Hinn 33 ára gamli Claas Relotius var ráðinn í fast starf hjá Der Spiegel árið 2017 en talið er að hann hafi skrifað um 60 greinar fyrir tímaritið frá árinu 2011. Vitað er að 14 þeirra eru spilltar með fölsunum og rangfærslum. Það var annar blaðamaður Der Spiegel, Juan Moreno, lausamaður hjá vikuritinu, sem kom upp um Relotius eftir að hafa grunað hann um græsku í nokkurn tíma. Þann 19. desember siðastliðin greindi tímaritið frá fölsununum og í útgáfu blaðsins 21. desember birtist 23 blaðsíðna umfjöllun um málið. Enn er unnið að rannsókn á umfangi falsanna Claas Relotius.

Claas Relotius hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir skrif sín og má þar nefna CNN’s "Journalist of the Year", 2014, European Press Prize árið 2017 og þýsku blaðamannaverðlaunin (Deutscher Reporterpreis) árin 2013, 2015, 2016 og 2018. Þau síðustu voru afhent í Berlín í byrjun desember. Margar verðlaunaumfjallanir hans eru nú taldar falsaðar. Þar má nefna umfjöllun hans um írösk börn sem rænt var af hermönnum íslamska ríkisins, fanga í Guantánamo og sýrlenska munaðarleysingja sem unnu í Tyrklandi. Árið 2017 sendi Der Spiegel Relotius til Fergus Falls í Minnesota í Bandaríkjunum þar sem hann átti að fjalla um líf bæjarbúa og gefa lesendum betri innsýn í líf Bandaríkjamanna. Sú frásögn hefur orðið fræg að endemum enda kannast bæjarbúar ekki við að hafa veitt honum viðtöl eða þá þau ummæli sem eftir þeim eru höfð. Tveir íbúar bæjarins, þau Michele Anderson og Jake Krohn grunaði að ekki væri allt með feldu, hófu eigin rannsókn og höfðu síðan samband við ritstjórn Der Spiegel. Haft var eftir Anderson að í 7300 orða umfjöllun um Fergus Falls hefði aðeins verið farið rétt með nafn bæjarins og meðalhitastig. Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu sérstaka máli.