Kristinn Hrafnsson: „Áfall fyrir blaðamennsku í heiminum“

Kristinn Hrafnsson, rit­stjóri Wiki­Leaks, segir niðurstöðu áfrýjunardómstóls í Bretlandi í máli Julian Assange í morgun, áfall fyrir Assange og fjölskyldu, „en einnig áfall fyrir blaðamennsku í heiminum.“ Fjölmörg samtök hafa lýst áhyggjum af ákvörðuninni, svo sem Amnesty International og bresku blaðamannasamtökin NUJ, sem segja niðurstöðuna högg fyrir tjáningarfrelsið. Blaðamannafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem áhyggjum og vonbrigðum er lýst yfir úrskurðinum sem sé aðför að tjáningarfrelsinu.

Verði Assange framseldur, líkt og úrskurðurinn í dag segir til um, bíður hans hámarksrefsing fyrir 18 ákæruliði, sem byggja á fornri, bandarískri njósnalöggjöf frá árinu 1917, sem nemur 175 ára fangelsi. Þetta er í fyrsta sinn í bandarískri sögu sem mál er rekið gegn blaðamanni á grunni þessarar löggjafar.

Bandarísk stjórnvöld höfðu betur gegn Julian Assange fyrir áfrýjunardómstóli í Bretlandi í dag sem sneri við niðurstöðu héraðsdóms frá því í janúar sem úrskurðaði að ekki mætti framselja Assange til Bandaríkjanna vegna slæmrara andlegarar heilsu hans. Niðurstaða dómsins í dag gengur út frá því að bandarísk yfirvöld geti tryggt gott atlæti hans í bandaríkjunum þannig að draga megi veri úr líkunum á því að hann fremji sjálfsmorð, en dómstóllinn í janúar synjaði heimild um framsal á þeim forsendum að Assange væri í sjálfsmorðshættu. 

Kristinn segir að dómurinn í dag sé einfaldlega hræðilegur. „Eina málsástæðan sem áfrýjunarrétturinn byggir á snýr að þessum svokölluðu tryggingum sem Bandaríkjamenn hafa lagt fram um að Julian þurfi ekki að þola helvítisvist í bandarísku fangelsi, heldur verði farið vel með hann.“ Hann segir í fyrsta lagi ótrúlegt að áfrýjunarréttur skuli gagnrýna héraðsdóm, líkt og hér hafi gerst, fyrir að hafa ekki haft frumkvæði að því að benda Bandaríkjamönnum á að koma með slíkar tryggingar í undirrétti. Lögmenn hafi haft full tök á að leggja fram slíkar tryggingar en ekki gert það. „Þvert á móti lögðu þeir leið á lykkju sína til að sannfæra héraðsdómara um að alræmdustu fangelsin í Bandaríkjunum væru bara hin mannúðlegustu,“ segir Kristinn. „Að auki er búið að sýna fram á, t.d. á vegum samtaka á borð við Amnesty International, að það sé ekkert hald í svona tryggingum,“ segir hann. Í þeim áskilji bandarísk yfirvöld sér meira að segja rétt til þess að skipta um skoðun, bendir Kristinn á. Auk þess séu dæmi um að þær hafi áður verið þverbrotnar og ekki við þær staðið. „Þarna er um lagalega hártogun að ræða sem stokkið er á og læðist að manni sá grunur að niðurstaðan sé eingöngu þjónkun við aðra arma breska ríkisvaldsins og bandamenn hinum megin við Atlantshafið,“ segir hann.

Kristinn segir að Assange hafi ekki gefist upp, heldur muni slagurinn halda áfram. „Það er brýnt og nauðsynlegt að sem flestir láti sig þetta mál varða, stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa og allir einstaklingar, hvaða skoðanir sem þeir hafa á stjórnmálum almennt. Þetta er spurning um mannréttindi og í raun kaldhæðnislegt að þessi niðurstaða skuli vera gerð opinber á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna,“ segir hann.

Um næstu skref segir Kristinn að málinu verði áfrýjað til hæstaréttar Bretlands með beinum hætti en einnig verði það sent aftur til neðra dómstigs til endurákvörðunar - og þeirri ákvörðun verði einnig áfrýjað. „Það þýðir að óbreyttu áframhaldandi innilokun Julian mánuðum og jafnvel árum saman.“

Spurður um liðan Assange segir Kristinn verulega af honum dregið. „Enda hefur hann verið látinn sæta gæsluvarðhaldsvist í á þriðja ár, saklaus í skilningi laganna, í rammgerðu öryggisfangelsi sem byggt var fyrir hryðjuverkamenn og harðsvíruðustu glæpamenn Bretlands.“