Lög um fjölmiðlastyrki framlengd um tvö ár

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. 
Mynd: Alþingi
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Mynd: Alþingi

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um framhald styrkja til einkarekinna fjölmiðla var lagt fram á Alþingi í dag, föstudag, en frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn fyrr í vikunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir framlengingu á gildistíma þessa fyrirkomulags um tvö ár, og á þeim tíma skuli kerfið endurskoðað með hliðsjón af því hvernig stuðningi við fjölmiðla er háttað á hinum Norðurlöndunum. 

Fyrstu fréttir af frumvarpinu eftir að ríkisstjórnin afgreiddi það á þriðjudaginn kváðu gildistíma framlengingar laganna hafa verið styttan í eitt ár, sem sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans endurspeglaði þá andstöðu sem til staðar væri við frum­varpið innan rík­is­stjórn­ar­innar, en hún komi „fyrst og síð­ast frá ráð­herrum Sjálf­stæð­is­flokks“. 

Samkvæmt frumvarpinu á að skipa nefnd sem falið verði að móta fram­tíð­ar­til­lögur um fyrirkomulag stuðn­ings við einka­rekna fjöl­miðla.

Tæp fimm ár eru nú síðan nefnd um rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla afhenti ráðherra skýrslu sína með alls sjö til­lögum sem gætu bætt rekstr­ar­skil­yrði einka­rek­inna fjöl­miðla. Sú nefnd hafði starfað í meira en ár. Eina til­laga nefnd­ar­inn­ar sem ratað hefur í fram­kvæmd er umrætt styrkja­kerfi sem nú á að fram­lengja til eins árs. 

Í frum­varp­inu kemur fram að stefna stjórn­valda væri að innan gild­is­tíma laganna yrði „lagt fram nýtt frum­varp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norð­­ur­lönd­un­­um. Þannig verður Ísland ekki eft­ir­bátur hinna land­anna er kemur að stuðn­­ingi við einka­rekna fjöl­miðla.“ 

Á mál­þingi sem Blaða­manna­fé­lag Íslands og Rann­sókn­ar­setur um fjöl­miðlun og boð­­skipti við Háskóla Íslands stóðu fyrir í febr­úar síð­ast­liðnum boð­aði Lilja að hún vildi fara „dönsku leið­ina“ í mál­efnum fjöl­miðla. Í Dan­­mörku er DR, danska rík­is­sjón­varp­ið, ekki á aug­lýs­inga­­mark­aði og stutt er við einka­rekna fjöl­miðla með nokkrum mis­­mun­andi leiðum með það að mark­miði að tryggja fjöl­ræði á fjöl­miðla­­mark­aði.