Lögbanni synjað staðfestingar

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í hádeginu í dag í lögbannsmáli Glitnis HoldCo ehf gegn Stundinni og Reykjavík Media og sagði lögbann sýslumanns ekki byggja á nægjanlegum forsendum og neitaði þar með að staðfesta það.  Ekki er ljóst enn hvort Glitnir HoldCo áfrýjar málinu til Hæstaréttar, en bannið gildir þar til það skýrist. Forsvarsmenn Stundarinnar og Reykajvík Media hafa fagnað þessari niðurstöðu í fjölmiðlum.  Glitni er gert að greiða málskostnað bæði Stundarinnar og Reykjavík Media.

Dómur Héraðsdóms er ítarlegur og tekur annars vegar til staðfestingar á lögbanninu og eins á því hvort Stundinni og Reykjavík Media beri að afhenda þau gögn sem miðlarnir hafa úr Glitni.  Varðandi afhendingu gagnanna vísar dómurinn þeirri kröfu frá þar sem ekki sé ljóst hvaða gögn nákvæmlega verið er að tala um.

Stóra málið snýst hins vegar um staðfestingu lögbannsins og hvort þessi gögn séu í raun undirorpin trúnaði sem taki til blaðamanna, með tilvísun til 58. greinar laga um fjármálafyrirtæki þar sem bankaleynd er framlengd til aðila sem taka við gögnum sem bankaleynd hvíli á.  Í dómsorði er niðurstaðan um þetta mjög ótvíræð en þar segir:

„Stefndu, Útgáfufélag Stundarinnar ehf. og Reykjavik Media ehf. eru sýknaðir af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að þeim sé óheimilt að birta og/eða fá birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin er upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undiropin eru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.“

Dómurinn tekur m.ö.o. undir það sjónarmið að blaðamenn sem flytja fréttir er varða almenning  séu ekki bundnir af bankaleynd. Jafnframt gengur megin röksemdafærsla dómarans, Kjartans Bjarna Björgvinssonar, út á að vega saman í þessu máli stjórnarskrárvarin grundvallarréttindi til tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar.  Ríður þar baggamun hvað telst eiga erindi til almennings.  Kjarninn í röksemdafærslu dómsins kemur fram í eftirfarandi orðum: 

    „Hvað varðar umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., um málefni annarra einstaklinga en þáverandi forsætisráðherra, þá eru umræddir einstaklingar ýmist tengdir þáverandi forsætisráðherra fjölskylduböndum eða gegnum viðskipti, auk þess sem þeir höfðu á þeim tíma sem umfjöllunin tók til tengsl við Glitni hf. Er það mat dómsins að umfjöllun um málefni þeirra hafi verið svo samofin fréttaefninu í heild að ekki verði greint á milli, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005. Þá verða ekki dregnar þær ályktanir af umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., að ætlunin sé að fjalla um málefni handahófskenndra einstaklinga sem ekki eigi erindi til almennings.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að umfjöllun stefnda, Útgáfufélags Stundarinnar ehf., hafi ekki gengið nær einkalífi þeirra einstaklinga sem um ræði en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðar almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa. Breytir það ekki framangreindri niðurstöðu hvernig umþrætt gögn komust í hendur stefndu né heldur að í þeim séu upplýsingar sem undirorpnar séu bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.“

Sjá dóminn hér