Mary Hockaday frá BBC hjá Blaðamannafélaginu

Mary Hockaday, ábyrgðarmaður ristjórnarstefnu BBC World Service English
Mary Hockaday, ábyrgðarmaður ristjórnarstefnu BBC World Service English

Mary Hockaday, sem ber ábyrgð á ristjórnarstefnu BBC World Service English hjá breska ríkissjónvarpinu, segir frá reynslu sinni og svarar spurningum á óformlegum morgunverðarfundi fyrir blaðamenn í húsakynnum Blaðamannafélagsins miðvikudaginn 4. október.

Mary hefur fetað sig upp metorðastigann hjá BBC allt frá árinu 1986 þegar hún steig sín fyrstu skref þar sem lærlingur. Á árunum 2001-2006 ritstýrði hún alþjóðafréttum breska ríkisútvarpsins –  BBC World Service News and Current Affairs –  og undir forystu hennar vann deildin Sony Gold fjölmiðlaverðlaun fyrir umfjöllun sína um árásina á tvíburaturnana. Mary hefur stýrt bæði alþjóðlegum og breskum teymum í útvarpi, sjónvarpi og net- og nýmiðlum, þar á meðal helstu fréttatímum BBC.

Hjá BBC kemur Mary að verkefninu Turn Up The Volume sem miðar að því að jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum. Heimsókn hennar hingað til lands er hluti af fjölmiðlaverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu og Creditinfo. Það hefur staðið frá árinu 2013 og er markmiðið að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum.

Ásamt erindi Mary Hockaday fer fulltrúi Creditinfo, yfir glænýjar tölur um kynjahlutfall viðmælenda  í helstu ljósvakamiðlum landsins.

Morgunverðafundurinn verður hjá Blaðamannafélaginu Síðumúla 23, þann 4. október milli klukkan kl. 8.00-10.00. Dagskrá hefst 8.30 og þess ber að geta að Hockaday þiggur hvorki laun né gjafir vegna komu sinnar til landsins, eins og reglur BBC gera ráð fyrir.

Fundurinn er uppspretta fjölda frétta og hvetjum við því ykkur öll til að mæta, fá nýjustu fréttir um hlutfall kynjanna í ljósvakamiðlunum og ræða við Mary um stöðu kvenna á fjölmiðlum.