Myndatökur leyfðar í breskum dómssölum

Ákveðið hefur verið að leyfa myndatökur í breskum dómssölum.
Ákveðið hefur verið að leyfa myndatökur í breskum dómssölum.

Ákveðið hefur verið að leyfa myndatökur í breskum dómssölum en allar myndatökur hafa verið bannaðar til þessa í réttarsölum krúnunnar og þar með talið fyrir hinum þekkta Old Bailey-dómstól. Frumvarp þessa efnis hefur verið lagt fyrir breska þingið og er talið að það fái brautargengi. Frumvarpið hefur fengið jákvæðar viðtökur hjá fulltrúum dómstóla, sjónvarpsstöðva og hjá ríkisstjórninni að því er kemur fram í frétt á vef BBC. Fjölmiðlar og sérstaklega sjónvarpsstöðvarnar hafa lengi barist fyrir því að banninu verði aflétt.

Þetta eru talsverð tímamót þó nokkrar takmarkanir verði áfram á hve mikið má mynda. Þó er ljóst að áfram verða hamlanir en miðað er við að fyrst og fremst verði sýnt frá því þegar dómsorðið er lesið upp. Myndatökurnar munu takmarkast við það þegar dómarinn les upp úrskurð sinn og ekki verðu leyft að mynda sakborninga, fórnarlömb né vitni. Og mörgum lögmanninum til armæðu; myndatökur af lögmönnum verða ekki leyfðar. Gert er ráð fyrir að það taki um þrjá mánuði að koma málinu í gegnum þingið og myndatökur hefjist með vorinu. Heimilt verður að hlaða myndum af dómsúrskurðum niður á vefsíður og hafa þær þar til sýnis eftir að dómur er fallinn. 

Frumvarpið eins og það liggur fyrir núna, og nýtur almenns stuðnings, einkennist því af nokkurri varfærni. Það er ljóst að breskt dómkerfi mun ekki opna á myndatökur eins og hafa verið leyfðar af einstökum dómurum í bandarískum dómsölum og er kannski þekktast frá réttarhöldunum yfir íþróttamanninum O.J. Simpson árið 1995 en segja má að öll heimsbyggðin hafi fylgst með þeim.  

Myndatökur með þessum takmörkunum hafa verið leyfðar í Skotlandi síðan 1992 en hafa ekki verið ástundaðar mikið af fjölmiðlum. Þannig var til þess tekið að það var ekki fyrr en 2012 sem fyrst var sýnt frá dómsúrskurði í Skotlandi. Í Englandi og Wales hefur ávallt verið ótti við að slíkar myndatökur muni hafa áhrif á réttarfarið og koma illa við fórnarlömb og vitni að glæpum.

Allt síðan 1925 hafa allar myndatökur verið bannaðar í breskum réttarsölum. Það hefur meira að segja verið óheimilt að teikna myndir inni í salnum og því hafa hinir þekktu bresku dómstólateiknarar orðið að fara út úr réttarsalnum og teikna mynd sína þar eftir minni. Annar háttur hefur þó verið hafður á síðan hæstiréttur tók til starfa 2009. Þá hefur stundum verið leyfð myndataka fyrir áfrýjunardómstólum.