Nei, við erum ekki öll fjölmiðlar

Nýjustu uppljóstranir um þær aðferðir sem Samherji beitir í ófrægingarherferð sinni gegn fjölmiðlum og blaðamönnum höfðu eitt jákvætt í för með sér: Þær vöktu upp mikilvæga umræðu um hlutverk fjölmiðla í samfélaginu. Stjórnmálamenn sem hafa tjáð sig af þessu tilefni eru flestir á sama máli: Skæruhernaður stórfyrirtækis gegn fjölmiðlum er fordæmdur og það ber að standa vörð um blaðamennsku sem nauðsynlega forsendu lýðræðisins. 

Gott og vel. Stjórnmálamenn sem þagað hafa í þá átján mánuði sem þetta hefur staðið yfir hafa nú sumir loksins stigið fram. Sannarlega er betra seint en aldrei í þeim tilvikum. Flugrán Hvít-Rússa og handtaka blaðamannsins Romans Pratasevich nú í lok maí vakti enn fremur upp hörð viðbrögð utanríkisráðherra sem reis upp til varnar tjáningarfrelsinu og fjölmiðlum og krafðist þess að blaðamaðurinn yrði látinn laus tafarlaust. Svo afgerandi voru viðbrögð hans reyndar að eftir því var tekið hvað hann hefur lítið tjáð sig um þá aðför sem Samherji hefur viðhaft í ofsóknum sínum gegn íslenskum fjölmiðlum og blaðamönnum.  

Það þurfti flugrán

Hið grófa og grímulausa ofbeldi sem Pratasevich, og samferðafélagar hans í farþegaflugvél Ryan Air, var hugsanlega of opinbert til að hægt sé að koma sér hjá því að tjá sig um það. Að minnsta kosti hefur utanríkisráðherra sjaldan, ef nokkurn tímann, verið jafn skýr í ræðu sinni um að frjálsir fjölmiðlar séu grundvöllur lýðræðisins. Hvíta-Rússland er það land í Evrópu sem lýðræðið er hvað mest fótum troðið – og það ríki þar sem fjölmiðlafrelsi er með því minnsta í heimi. Það má þá að minnsta kosti vona að næst þegar hann fær tækifæri til, rísi hann upp til varnar tjáningarfrelsinu á Íslandi og fjölmiðlum okkar. 

Frjálsir fjölmiðlar eru grundvöllur lýðræðisins. Þetta er ekki innihaldslaus mantra frá blaðamönnum komin.  Fjölmiðlar eiga að upplýsa, veita aðhald og vera vettvangur umræðu, í þjónustu almennings í landinu. Þeir gera okkur kleift að verða upplýstir samfélagsþegnar, veita fólki rödd sem annars hefur hana ekki og reyna að láta kjósendur fá eins skýrar og hlutlausar upplýsingar um stjórnmál og stjórnmálafólk í aðdraganda kosninga svo þeir geti haft áhrif á samfélagið á sínum forsendum. Og stundum fletta fjölmiðlar ofan af spillingu. 

Ef íslenskir fjölmiðlar sinna ekki aðhaldshlutverki sínu fær almenningur ekki upplýsingar sem varða misbeitingu á valdi, hvort sem á við um stjórnvöld, fyrirtæki, opinberar stofnanir eða hagsmunasamtök.  

Þetta vita flestir. Eða hvað?

Nýjasta umræðan tengd Samherja hefur opinberað mikinn misskilning og rangtúlkanir um hlutverk blaðamanna og fjölmiðla. Blaðamenn eru sagðir „sjálfhverfir aumingjar“ sem mætti gagnrýna með hvaða hætti sem er. Þeir eigi bara að hætta að vera svona viðkvæmir.  

Sjálfhverfir aumingjar sem geta illa varið sig

Blaðamenn og fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagnrýni. Hún er þeim nauðsynlegt aðhald sem tryggir að þeir séu stöðugt að rækja hlutverk sitt með fullnægjandi hætti. En í þessu tiltekna máli, þegar kjörinn þingmaður kallar blaðamenn „sjálfhverfa aumingja“ fyrir að rísa loksins upp til varnar tjáningarfrelsinu, til varnar lýðræðinu, þá erum við komin á hættulegar brautir. Því ef blaðamenn gera það ekki sjálfir gerir það enginn. Ólíkt því sem þekkist í öðrum löndum virðist ekki vera lenska meðal stjórnmálamanna hér að styðja fjölmiðla þegar á þeim er brotið, þegar fréttamenn eru ofsóttir eða grafið er undan rekstri einkarekinna miðla. Orð eins og „tjáningarfrelsi“ , „frjálsir fjölmiðlar“ og „fjórða valdið“ sjást og heyrast á tyllidögum og við sérstök tækifæri, en þegar á reynir skríða stjórnmálamenn í felur, eða það sem verra er, gera lítið úr ástandinu, afbaka sannleikann og endurtaka jafnvel orðfæri þess sem ber ábyrgð á árásunum. Að minnsta kosti þegar sá sem árásunum beitir er með stórt vopnabúr og djúpa vasa. Eins og Samherji. 

En það sem er því miður ekki einsdæmi hér á landi, er að stjórnmálamenn ráðist gegn fjölmiðlum sem þeim eru ekki þóknanlegir. Sérfræðingar sem hafa skoðað þessi mál benda á að stjórnmálamenn líti svo á, beint eða óbeint, meðvitað eða ómeðvitað, að með orðræðu Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafi verið gefið út skotleyfi á fjölmiðla. Orðræðan, fyrirlitningin og árásirnar sem heimurinn varð vitni að af hálfu Trump í garð tiltekinna fjölmiðla hafa orðið til þess að stjórnmálamenn, og fleiri, leyfa sér í mun meira mæli en áður að ráðast að fjölmiðlafólki með tilhæfulausum ásökunum. Mörkin hafa færst til. Fjölmiðlafólki er gerðar upp sakir um hlutdrægni, að að baki fréttum þeirra séu annarlegar hvatir, það sé handbendi eigenda fjölmiðlafyrirtækjanna, stjórnmálaafla, hagsmuna og þar fram eftir götunum. Þó ber að halda til haga að árásir íslenskra stjórnmálamanna gegn tilteknum fjölmiðlum tíðkuðust reglulega fyrir tíð Donald Trump. Og dropinn holar steininn.

Árásirnar virka. Eftir því sem almenningur heyrir oftar í kjörnum fulltrúum sem úthúða blaðamönnum og fjölmiðlum, því líklegra er að fólk missi trú á fjölmiðlum. Sérstaklega í ljósi þess að árásirnar eru einhliða. Fjölmiðlar með hlutleysisskyldu geta alla jafna ekki með góðu móti varið sig gegn tilteknum stjórnmálamönnum, þó að það sé verið að ráðast á þá beint. Hlutleysisskyldan vegur þar þungt. Þess vegna verður þögn hinna stjórnmálamannanna næstum jafn hættuleg. 

Ef þeir sem virðingu bera fyrir hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélaginu láta aldrei í sér heyra, þá er umræðan alltaf á annan veginn. Það hefur verið svolítið íslenska leiðin. Það var ekki fyrr en óhróðurinn og orðfærið var orðið svo áþreifanlega sjokkerandi: „stinga, snúa og strá svo salti í sárið“, að stjórnmálamenn rönkuðu við sér. Það dugði ekki til að blaðamenn hafi þurft að búa við það að um þá sé njósnað, fylgst sé með heimili þeirra, þeim hótað. Því þessi sjálfhverfa stétt á verður bara að þola „smá gagnrýni“.

Prófíll á Instagram gerir þig ekki að blaðamanni

Sem betur fer virðist örla á vitundarvakningu í umræðunni. Ekki aðeins meðal stjórnmálamanna, heldur má greina ákveðna viðhorfsbreytingu í blaðamannastétt. Kallað hefur verið eftir aukinni samstöðu fjölmiðlafólks og að við látum í okkur heyra þegar á okkur er brotið. Ekki síst til að uppfræða almenning, og kjörna fulltrúa, um hlutverk fjölmiðla og blaðamennskustarfið.

Það virðast ríkja ranghugmyndir um fjölmiðla. Ein þeirra kristallast í setningu sem þingmaður lét út úr sér í viðtali fyrir skömmu: „Við erum öll fjölmiðlar“. Þessi setning endurspeglar fullkomið skilningsleysi á því sem svo mikilvægt er að halda á lofti í umhverfi upplýsingaóreiðu og falsfrétta: Hvað er fjölmiðill og hvað ekki? 

Flestir geta miðlað upplýsingum og það er ekkert nýtt. Sá sem stendur á torgi og predikar er ekki eins manns fjölmiðill, jafnvel þótt þúsundir séu að hlusta. Hann er samt að miðla upplýsingum. Þau sem meðtaka upplýsingarnar frá prédikaranum, bera þær undir samstarfsfólk sitt á ritstjórn fjölmiðils, setja þær í samhengi, leita viðbragða, skýra og birta sem frétt –  þau eru blaðamenn. Og miðillinn sem birtir fréttina er fjölmiðill. Jafnvel þótt miklu færri lesi fréttina en hlustuðu á prédikarann á torginu. Það er ekki stærð áheyrendahópsins, lesendahópsins, fjöldi áhorfenda eða fylgjenda sem ræður því hvort upplýsingamiðlun sé fjölmiðill. Það eru vinnubrögðin, fréttamatið, siðareglurnar, sannleikskrafan og hlutleysið. Samfélagsmiðlar, myndbönd, story á Instagram og blogg eru ekki fjölmiðlar. Þetta eru stafræn torg með þúsund prédikurum. 

Það er alvarlegt og örlítið furðulegt að þau sem taka virkan þátt í samfélagsumræðunni, jafnvel kjörnir fulltrúar, skilji ekki þennan mun. Að því sé haldið fram að við séum öll fjölmiðlar og taka þannig þátt í að afmá mörkin enn frekar dregur úr trausti á fjölmiðla. Því ef fólk veit ekki hvaðan upplýsingar eru fengnar, hvort það er á ritstýrðum fjölmiðli samkvæmt þeim kröfum sem þar gilda, eða á einhliða bloggsíðum eða áróðursmyndböndum, þá vakna spurningar um hverjum sé treystandi. 

Það er vinna að gera góðar fréttir

Þegnar í virku lýðræðisríki þurfa að vera upplýstir. En það er til lítils gagn að skrifa vandaðar fréttir ef lesendur trúa þeim ekki. Þótt um það sé deilt hversu mikið traust hefur dvínað á fjölmiðla og fréttir undanfarin ár eru flestir sammála því að það sé mjög hvikult. Eitt af því sem nefnt hefur verið að auki traust á fjölmiðla er að þeir sjálfir komi því betur á framfæri hvernig fréttamenn vinna fréttir og hvaða vinna fer fram inni á ritstjórn fjölmiðlanna, hvaða siðareglum er fylgt, hvaða vinnureglum og svo framvegis. 

Því mætti velta því upp hvort fjölmiðlar og blaðamenn ættu að taka sig saman og hefja nokkurs konar kynningar- og fræðsluherferð, fyrir almenning og kjörna fulltrúa, lýðræðinu, tjáningarfrelsinu og fjölmiðlum sjálfum til varnar. Það virðist vera full þörf á að árétta hvaða hlutverki fjölmiðlar gilda í lýðræðissamfélagi, hvernig þeir starfa, hvernig fréttir verða til og hvaða vinna fer fram inni á ritstjórnum. Það yrði þá kannski líka til þess að kjörnir fulltrúar hættu að líta á sjálfa sig, og alla aðra, sem fjölmiðla.

Greinin birtist í júní-tölublaði Blaðamannsins 2021