Noregur: Reynir á styrkjakerfið

Áhugaverð umræða á sér nú stað í Noregi varðandi blaðastyrki vegna umsóknar Dagbladet Pluss, sem er sérútgáfa af Dagbladed með sjálfstæða ritstjórn að einhverju leyti.  Spurningin gegnur út á það hvort Dagbladed Plus uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu styrkja hjá norsku fjölmiðlanefndinni.  Ekki er búið að fallast á umsókn Dagbladed Pluss ennþá, en búist er við að niðurstaða verði ljós síðar í haust.

Málið hefur a.m.k. tvær hliðar. Annars vegar er það spurningin um það hvor þetta sé  miðill sem er almenns eðlis og fjallar um samfélagslega mikilvæg mál en ekki aðeins tiltekin afmörkuð mál. Þetta er almennt mat ogekki ósvipað því sem er til umræðu í frumvarpi hér á landi um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þar er einmitt ákvæði um að miðillinn hafa slíkt hlutverk og er það ákvæði byggt á norrænni fyrirmynd. Hér er á ferðinni atriði sem getur verið mjög umdeilt, en úthlutundarnefndin í Noregi hefur fengið til liðs við sig tvo utanað komandi aðila til að meta og innihaldsgreina miðilinn og bera saman við aðra miðla.

Hitt atriðið sem deilt er um snertir þá staðreynd að Dagbladed Pluss er dótturfélag útgáfufélagsins Aller Media, sem einnig gefur út Dagbladed. Umtalsverður samrekstur er með þessum miðlum, t.d. varðandi dreifingu og ýmsa stoðþjónustu, þannig að það skapar ákveðin vandamál við skilgreiningar á Dagbladed Pluss sem sérstakri rekstrareiningu. Tap hefur verið á Dagbladed Pluss en miðillinn gæti, ef umsókn þess verður samþykkt, átt von á að fá um 25 milljónir norskra króna (337 milljónir ísl. kr) úr styrkjapotti upp á 318 milljónir nkr.

Það er því eftir verulegum fjármunum að slægjast fyrir Dagbladet Pluss, en á sama tíma munu aðrir miðlar missa af þessum fjármunum, þar sem minna verður til skiptanna úr sameiginlegum potti.  Þar kemur til enn eitt ágreiningsefnið, því hér eru miklir hagsmunir í húfi, en úthlutunarnefndin er einmitt skipuð að lang mestu leyti aðilum sem hafa hagsmuna að gæta, bæði blaðaútgefendum á landsvísu og sambandi héraðsfréttablaða og fólki með tengsl við fjöðlmiðla sem hafa hagsmuna að gæta í styrkjakerfinu.

Hér á landi hefur verið gert ráð fyrir að miða styrki við útgáfufélög þannig að félög sem reka marga miðla verði meðhöndluð sem einn aðili þannig að ekki sé hægt að sækja um styrki fyrir dótturfélög eða mismunandi gáttir. Hins vegar gefur norska dæmið tilefni til að velta upp spurningum  hvort og hvernig hugsanlegt samstarfi milli skyldra en formlega sjálfstæðra útgáfufélaga gæti verið háttað og hvort það myndi hafa áhrif á styrkveitingar.

Þessi umræða í Noregi er áhugaverð fyrir Ísland í ljósi þess að hér stendur til að taka upp styrkjakerfi, en að mörgu er að hyggja við setningu reglna og viðmiða.  Í Noregi hafa menn jafnvel gengið svo langt að benda á að ef Dagbladed Pluss fær sinn styrk, þá muni það e.t.v ekki ríða styrkjakerfinu að fullu. Hins vegar sé þá búið að opna Pandórubox þar sem aðrir miðlar fari í svipaðar æfingar og þá muni hrikta í stoðum kerfisins. Það er m.a. sú spurning sem varpað er fram í úttekt á vef Blaðamannafélags Noregs, Journalisten, þar sem fjallað er ítarlega um þetta mál.

Sjá umfjöllun Journalisten hér