Norsk covid-könnun: Góðir kollegar, yfirmenn og umhverfi mikilvægt

Hege Iren Frantzen,formaður NJ
Hege Iren Frantzen,formaður NJ

Norska blaðamannafélagið (NJ) lét í sumar gera könnun meðal félagsmanna sinna á því hvaða áhrif heimavinna þeirra í kórónuveirufaraldrinum hefði á þá. Ýmis atriði voru könuð ekki síst áhrif á persónulega líðan en líka á starfssemina og möguleika til að vinna inni á heimili. Ein  niðurstaðan sem í ljós kom var sú að blaðamenn í Noregi voru almennt ekki smithræddir við störf sín. Hege Iren Frantzen, formaður NJ segir að það séu í sjálfu sér góðar fréttir í ljósi þess að stór hluti af vinnu blaðamanna sé að vera í tengslum og sambandi við heilbrigðisstarfsfólk og flytja fréttir af plágunni.  Þá segir hún að í könnuninni komi í ljós að  góðir kollegar, góðir stjórnendur og gott vinnuumhverfi skipti mjög miklu máli fyrir heilsu og líðan þeirra blaðamanna sem ekki beinlínis sýkjast af veirunni.  Hún bendir á að þetta séu atriði sem hægt sé að læra af, almennt hjá stjórnendum, hjá kjörnum fulltrúum sem fjalla um pláguna og hjá þeim sem vinna  í öryggismálum vegna hennar.

Könnunin leiðir í ljós að reynslan af því að vinna heima er nokkuð misjöfn. Mjög áberandi er að blaðamenn telja mikið vanta þegar þeir geta ekki verið í samskiptum augliti til auglitis, en engu að síður virðast flestir hafa verið í góðu sambandi við kollega sína og yfirmenn.  Um þriðjungur telur að reynslan sé góð eða mjög góð, en álíka stór hluti telur hins vegar að reynslan hafi ekki verið góð.  Greinilegt er að það veltur mjög á aðstæðum blaðamanna heima fyrir hvernig þeir svara þessum spurningum, t.d. hvort þeir eru með börn heima eða ekki.  Það vekur hins vegar athygli að vinnuveitendur virðast hafa tekið mjög misjafnan þátt í að gera blaðamönnum auðveldara um vik að vinna heima. Þannig segir um fjórði hver blaðamaður að atvinnurekandinn hafi ekki gert mikið til að aðstoða með búnað og tengingar þannig að blaðamenn gætu unnið heima.  Á þetta bendir Frantzen  og segir það koma á  óvart hversu stór hópur sé óánægður með aðstoð frá atvinnurekendum sínum.  „Það segir sig sjálft að léleg tæki og slakar nettengingar hafa áhrif á vinnuumhverfið og það er full ástæða til að ætla að slíkt leiði af sér stress, óánægju og jafnvel heilsufarstengd vandamál,“ segir hún.

Sjá einnig hér