Ný skýrsla um dóma MDE um tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur gefið út skýrslu um „Dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks á Íslandi 2012–2017“, en það er Gunnar Páll Baldvinsson, LL.M. sem er höfundur hennar. Stofnuninni var falið af Alþingi, vegna beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að vinna þessa rannsókn á dómum sem gengið hafa hjá Mannréttindadómstól Evrópu í málum gegn íslenska ríkinu um tjáningarfrelsi. Sem kunnugt er hafa á undanförnum árum fallið margir dómar hjá Mannréttindadómstólnum gegn íslenska ríkinu á þessu sviði og fer skýrsluhöfundur í saumana á þessum dómum, greinir þá og kemur með tillögur til úrbóta.  Skýrsluna í heild má finna hér, en meðal þess sem finna má í niðurstöðukafla hennar eru eftirfarandi leiðbeiningar fyrir íslenska dómastóla:

„Vegna annmarka sem voru á íslenskum dómsúrlausnum eru í skýrslunni settar frameftirfarandi leiðbeiningar sem hafa má til hliðsjónar þegar íslenskir dómstólar standa frammi fyrir því að meta hvort nauðsynlegt teljist í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi:

* Gæta þarf að þeim sjónarmiðum sem Mannréttindadómstóllinn hefur sérstaklega tilgreint að þurfi að taka mið af við slíkt mat. Umrædd sjónarmið eru hvort efni umfjöllunar teljist framlag til almennrar umræðu, hver sé staða og fyrri hegðun þess einstaklings sem fjallað er um, hvernig upplýsinga var aflað og þær sannreyndar, hvert sé efni, form og afleiðingar af birtingu efnis og loks hvert sé eðli viðurlaga og hversu íþyngjandi þau séu.

* Þá voru eftirfarandi leiðbeiningar settar fram um atriði sem dómstólar geta haft í huga þegar túlkað er hvað felist efnislega í umdeildum ummælum:

Í fyrsta lagi geta dómstólar rökstutt ítarlegar en gert hefur verið hvernig ummæli verði skilin á þann hátt að með þeim hafi nafngreindum einstaklingi verið gefin að sök refsiverð háttsemi. Mætti þannig heimfæra ummælin til almennrar verknaðarlýsingar og jafnvel vísa til tiltekins refsiákvæðis.

Í öðru lagi ætti að meta ummæli með hliðsjón af umfjöllun í heild sinni. Þar sem hægt er að túlka ummæli á mismunandi vegu ætti að leitast við að veita þeim ekki meira meiðandi merkingu en leiðir af umfjölluninni að öðru leyti. Aðrar upplýsingar sem er að finna í umfjölluninni kunna að skýra hvað býr að baki ummælunum. Tilefni getur verið til að líta svo á að ummæli feli frekar í sér gildishlaðna lýsingu á fyrirliggjandi staðreyndum en staðhæfingu um staðreyndir. Er sérstaklega tilefni til að gæta að þessu þegar um er að ræða málefni sem varðar almenning.

Í þriðja lagi ætti ekki að gera þá kröfu til þeirra sem tjá sig á opinberum vettvangi að þeir gæti fyllstu nákvæmni um hugtök sem kunna að hafa sértæka merkingu á fagsviðum. Sérstaklega verður ekki gerð sú krafa til almennings eða blaðamanna að notuð séu nákvæmlega rétt lögfræðileg hugtök þótt sakamál séu til umfjöllunar.“