Nýr kjarasamningur milli BÍ og Birtings undirritaður

Nýr kjarasamningur milli Blaðamannafélags Íslands og útgáfufélagsins Birtings var undirritaður nú í hádeginu með fyrirvara um samþykki samninganefndar BÍ og félagsmanna BÍ á Birtingi og stjórnar Birtings.  Kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn fer fram í hádeginu á morgun, en frestur til að tilkynna um afgreiðslu kjarasamningsins er til klukkan 17.00 á morgun þriðjudaginn 29. október 2019.

Samningurinn gildir í þrjú ár til 1. nóvember 2022 og felur meðal annars í sér gildistöku nýrrar launatöflu, grunnkaupshækkanir, hækkun á endurgreiddum kostnaði, endurskoðun á vaktaálagi og gildistöku á samningi um framsal á höfundarrétti, auk fleiri smærri atriða.  Samningurinn er vel innan þeirrar launastefnu sem mótuð hefur verið á árinu á almennum vinnumarkaði.

Útgáfufélagið Birtingur gefur út tímaritin Gestgjafann, Vikuna, Hús og Hýbýli og dagblaðið Mannlíf og er stór vinnustaður blaðamanna.

 Viðræður standa yfir við aðra smærri miðla og standa vonir til að þær skili niðurstöðu fljótlega.

Samningafundur  hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á morgun klukkan 10.30 með Blaðamannafélaginu og þeim miðlum sem kosið hafa að standa innan Samtaka atvinnulífsins og hafa afhent þeim samningsumboð.  Ekkert hefur hreyfst í samningamálum þessara aðila þrátt fyrir sjö mánaða samningaviðræður og skjalfest er hjá ríkissáttasemjara með tilboði SA fyrir hönd Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, RÚV og Sýnar að blaðamönnum eru boðnar minni kjarabætur en samist hefur um við aðra á árinu.  Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvanir blaðamanna á þessum miðlum fer fram á miðvikudaginn kemur, 30. október.

Samninagviðræður Birtings og Blaðamannafélagsins tóku viku.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ: „Ég er gríðarlega ánægður með að nást hafi samningar við Birting og bind vonir við að samningar náist á næstu dögum við aðra smærri miðla.  Það skiptir höfuðmáli í þeirri erfiðu stöðu sem fjölmiðlar eru í, að taka höndum saman, sækja fram, og nýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru.  Til þess þarf að sýna frumkvæði og hugrekki og verja lágmarkskjör.  Það hefur tekist með þessum samningi að mínu mati og á Birtingur heiður skilinn að eiga þar hlut að máli.“

Nýi kjarasamningurinn verður birtur þegar hann hefur verið kynntur og afgreiddur af þeim blaðamönnum sem hann tekur til.