Öll græða á öflugri blaðamennsku

Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands

Á hverju ári fletta Íslendingar tekjublöðum fjölmiðla og iðulega raðar hópur úr viðskiptalífinu sér á toppinn. Orðræðan í kjölfar útgáfu blaðanna snýst að mestu um skiptingu gæða í samfélaginu, sem er afar mikilvæg lýðræðisleg umræða. Alls kyns skoðanir og ótal raddir dynja á okkur úr öllum áttum, en sem betur fer draga blaðamenn saman upplýsingar og setja hlutina í samhengi fyrir okkur. Þeir koma á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setja fram staðreyndir og kanna sannleiksgildi þess sem sagt er. Þá veita þeir aðhald og sannreyna upplýsingar. Hvar sem við röðumst á tekjulistann eigum við það sameiginlegt að njóta góðs af faglegri blaðamennsku sem greinir kjarna máls með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Öflug blaðamennska er svarið við aukinni pólariseringu, upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem plaga íslenskt samfélag, og önnur.

Frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru grundvallarforsenda heilbrigðis lýðræðissamfélags. Um það er ekki deilt. Það er einnig óumdeilt að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur versnað mikið á undanförnum árum. Ástæðan er fyrst og fremst stórfelldar breytingar á fjölmiðlamarkaði með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og tæknirisa á borð við Facebook og Google sem soga til sín æ stærri hluta af auglýsingafé. Staða fjölmiðla er ekki einkamál blaðamannanna sjálfra heldur varðar hún samfélagið allt.

Okkar aðhald er ykkur mikilvægt

Ríkasta fólk landsins hefur hag af öflugri blaðamennsku rétt eins og við hin. Það er hins vegar í betri stöðu til þess að styðja frjálsa fjölmiðla enn betur en hinn almenni launamaður og stuðla þannig að öflugri blaðamennsku, öllum til heilla. Öflug blaðamennska er ekki síður mikilvæg fyrir toppana í samfélaginu en okkur hin. Hún veitir atvinnulífinu aðhald og stuðlar að því að leikreglum þess sé fylgt. Þá eru frjálsir fjölmiðlar mikilvægur vettvangur fyrir fyrirtæki og atvinnulíf til þess að koma sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri. Þá eykur öflug blaðamennska traust gagnvart fyrirtækjum sem stunda heilbrigða viðskiptahætti og stuðla að velmegun í samfélaginu.

Blaðamannafélag Íslands skorar hér með á tekjuhæsta hóp landsmanna að sýna samfélagslega ábyrgð og styðja duglega við fjölmiðla landsins og stuðla þannig að öflugri blaðamennsku sem skiptir samfélagið máli. Til þess eru margar leiðir, svo sem að fyrirtæki kaupi áskriftir að fjölmiðlum handa hverjum einasta starfsmanni, að beina auglýsingum fyrirtækja til íslenskra fjölmiðla eða gerast styrktaraðili nýs samfélagssjóðs blaðamanna, Glætunnar, sem er ætlað að efla samfélagslega mikilvæga blaðamennsku. Nánar má lesa um sjóðinn á glaetan.is.

Við græðum öll á öflugri blaðamennsku og þau sem eiga mest í samfélaginu ættu að leggja sitt af mörkum til að blaðamenn og fjölmiðlar geti sinnt hinu mikilvæga hlutverki sínu til framtíðar.


Greinin birtist fyrst í Hátekjublaði Heimildarinnar 23. ágúst.