Pressuhádegi BÍ um lífeyrismál 13. apríl

Borgar sig að byrja að taka lífeyri um leið og það er heimilt við 65 ára aldur og taka á sig skerðingu vegna þess eða borgar sig að bíða til 67 ára aldurs eftir fullum réttindum eða bíða jafnvel til sjötugs og taka þá hærri lífeyri til frambúðar?

Þessum og fleiri tengdum spurningum verður reynt að svara á Pressuhádegi BÍ sem haldið verður annan föstudag, föstudaginn 13. apríl 2018 klukkan 12.00 í Pressuklúbbnum, félagssal BÍ að Síðumúla 23.  Boðið verður upp á léttan hádegismat og þess vegna er NAUÐYNLEGT að skrá þátttöku á netfanginu hjalmar@press.is  

Fyrirlesari verður Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, sem hefur áratugareynslu af störfum að lífeyrismálum og sérþekkingu á því sviði.  Meðal annarra spurninga sem reynt verður að leita svara við er nýr möguleiki á hálfum lífeyri við 65 ára aldur, samhliða fullu starfi, sem samþykkt var á ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna, skömmu fyrir páska og ráðgert er að taki gildi í haust, samspil atvinnutekna og lífeyristekna, séreignasparnað og tekjur frá Tryggingastofnun og samspil þessa alls.

Mjög mikilvægt umfjöllunarefni fyrir blaðamenn sem horfa fram á lífeyristöku á næstu árum, en segja má að fyrsta stóra kynslóð blaðamanna, sem ákvað að gera blaðamennsku að ævistarfi, sé um það bil að komast á lífeyrisaldur.

Gert er ráð fyrir að fundurinn taki eina til eina og hálfa klukkustund.