Samningsumboð BÍ fyrir dagskrárgerðarfólk viðurkennt

Félagsdómur hefur fellt dóm í máli Blaðamannafélags Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd RÚV ohf., þar sem BÍ krafðist þess að um kjör tveggja dagskrárgerðarmanna á RÚV, sem eru félagar í BÍ, væri farið eftir kjarasamningi BÍ við Samtök atvinnulífsins. Dagskrárgerðarmennirnir sem í hlut eiga höfðu leitað liðsinnis BÍ á árinu 2019 vegna þess að vinnuveitandi þeirra stóð fast á því að samningur RÚV við Fræðagarð skyldi gilda um starfskjör þeirra, ekki samningur BÍ við SA. Deilan endaði með því að BÍ kærði málið til Félagsdóms, en aðalmálflutningur fór fram 4. október sl. Karl Ó. Karlsson hrl. flutti málið f.h. BÍ, en Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóri BÍ, bar vitni í aðalmeðferðinni. 

Dómsorðið, sem var kveðið upp kl. 16:00 þriðjudaginn 29. nóvember, er svohljóðandi: 

„Viðurkennt er að stefnandi, Blaðamannafélag Íslands, fari með samningsaðild fyrir [dagskrárgerðarmann A] frá og með 1. júlí 2019 og [dagskrárgerðarmann B] frá og með 1. september 2019 við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra sem dagskrárgerðarfólk hjá Ríkisútvarpinu ohf. 

Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna RÚV ohf., er sýknaður af öðrum kröfum stefnanda í málinu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.“ 

Dómararnir Kjartan Bjarni Björgvinsson, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Guðmundur B. Ólafsson og Ólafur Eiríksson rita undir dóminn, sem hefur nú verið birtur á vef Félagsdóms. 

Með þessum úrskurði hefur Félagsdómur tekið af allan vafa um að BÍ fari með kjarasamningsumboð fyrir það dagskrárgerðarfólk á RÚV sem á aðild að BÍ. Enda heldur Fræðagarður því ekki fram að „starf dagskrárgerðarmanns sé á samningssviði félagsins“. Dómurinn fellst í niðurstöðu sinni því ekki á það með stefnda, þ.e. RÚV ohf., að starfið „dagskrárgerðarmaður“ sé á starfssviði Fræðagarðs.

Það er þó ekki þar með sagt að allt dagskárgerðarfólk á RÚV geti að óbreyttu gert kröfu um að kjarasamningar BÍ gildi um þeirra störf. Dómurinn féllst ekki á að aðalkjarasamningur BÍ og SA taki almennt til dagskrárgerðarfólks utan fréttadeilda. 

Meðal raka fyrir þessari niðurstöðu er í dómnum vísað til þess að stefndi (RÚV ohf.) telji „hvergi ráðið af gildandi kjarasamningi aðila að hann taki til annarra dagskrárgerðarmanna en þeirra sem starfa á fréttadeildum útvarps- og sjónvarpsstöðva. Auk þess verði dagskrárgerðarmenn ekki felldir undir kjarasamning aðila af þeirri ástæðu einni að stefnandi ákveði að rýmka inngönguheimildir i félagið á grundvelli eigin félagslaga, hvað þá eftir að kjarasamningurinn hafi verið gerður sem kunni meira að segja að hafa verið raunin.“ (70. mgr.) 

Í 83. málsgrein dómsins segir síðan: 

„Dómurinn telur ljóst að þegar litið er til orðalags greinar 2.1. í lögum stefnanda [þ.e. BÍ] standi ekki rök til þess að leggja störfin „blaðamaður“ og „dagskrárgerðarmaður“ að jöfnu. Þannig eru störfin í fyrsta lagi sérstaklega aðgreind í upptalningunni í öðrum málslið ákvæðisins sem ber eitt og sér vott um að samningsaðilar hafi gengið út frá því að ekki væri um sama starf að ræða. Í öðru lagi þá er einungis tiltekið í sömu upptalningu að hún nái til dagskrárgerðarmanna á „fréttadeild útvarps- og sjónvarpsstöðva“. Aðild dagskrárgerðarmanna að stefnanda er þar með afmörkuð sérstaklega við fréttadeildir útvarps- og sjónvarpsstöðva. Af þessu leiðir að ekki er unnt að draga þá ályktun af orðalagi ákvæðisins að samningsaðilar hafi litið svo á að leggja beri þessi störf að jöfnu.“