Skora á fjölmiðlafyrirtæki að hagræða ekki í launum

Hjálmar Jónsson formaður BÍ og stjórnendur Stundarinnar, þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Tr…
Hjálmar Jónsson formaður BÍ og stjórnendur Stundarinnar, þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson handsala samninginn nú síðdegis.

Blaðamannafélag Íslands og Útgáfufélag Stundarinnar skrifuðu undir kjarasamning seinnipartinn í dag sem er í öllum aðalatriðum samhljóða þeim samningum sem félagið hefur gert að undanförnu við Birting og Kjarnann. 

„Við sem stýrum Stundinni skorum á önnur fjölmiðlafyrirtæki að freista þess að hagræða með öðrum hætti en launum starfandi blaðamanna,“ sagði Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Stundarinnar í samtali við press.is. að lokinni undirritun. „Þannig hefur Stundin til dæmis takmarkað útgáfutíðni og kappkostað að yfirbygging og stjórnunarkostnaður sé í lágmarki. 

Þó svo að fjölmiðlafyrirtæki eigi erfitt með að borga há laun er ýmislegt hægt að gera til þess að hindra atgervisflótta úr blaðamennsku. Það skiptir miklu máli fyrir allt samfélagið, því besta leiðin til að tryggja gagnsæi og gott upplýsingaflæði til almennings er að viðhalda sterkum kjarna af íslenskum fagblaðamönnum sem geta lifað fjárhagslega sjálfbæru lífi. Auk þess hvetjum við stjórnvöld til þess að tryggja að starfsaðstæður íslenskra fjölmiðla og blaðamanna nálgist aðrar norrænar þjóðir, bæði réttarfarslega og fjárhagslega,“ sagði Jón Trausti ennfremur.

Viðræður standa yfir við aðra smærri fjölmiðla, svo sem DV, Bændablaðið og Viðskiptablaðið og ganga þær vel, þó þær hafi ekki enn skilað niðurstöðu. Viðræður við SA vegna Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Sýnar og RÚV eru strand og hefst boðuð fjögurra tíma vinnustöðvun á þessum miðlum í fyrramálið klukkan 10.