Skrifað undir kjarasamning BÍ og SA

Kjarasamningar milli Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafa verið undirritaðir.  Í samnatekt Hjálmars Jónssonar, formanns BÍ, á helstu atriðum sem í samningnum felast segir m.a.: "Samningurinn er afturvirkur til 1. mars og þá hækka öll laun og launataxtar um 17 þús.  Frá 1. apríl nk. hækka öll laun um 18 þús og kauptaxtar um 24 þús.  Frá 1. apríl er launahækkunin þannig 35 þúsund að lágmarki fyrir alla og 41 þúsund fyrir þá sem eru á töxtunum."  Þá segir Hjálmar enn fremur í samantekt sinni og mati að mikilvægasta ákvæðið í samningnum þegar til engri tíma er litið sé að hans mati nýtt ákvæði um yfirvinnu. "Ólaunuð yfirvinna hefur verið stærsta meinsemdin hvað varðar kjör blaðamanna á undanförnum árum, sem undantekningalítið vinna yfirvinnu án þess að fá hana greidda nema stundum, mismunandi eftir vinnustöðum.  Afdráttarlaust er kveðið á um það að sé yfirvinna ekki greidd með venjulegum hætti er hægt að semja um að safna upp frídögum en fá yfirvinnuálagið greitt út með launum hverju sinni.  Ef frídagar eru ekki teknir út fyrir 1. maí ár hvert eru þeir greiddir út, segir Hjálmar.

 Upplýsingafundur um samninginn verður haldinn í húsnæði BÍ Síðumúla 23 klukkan 12.00 á morgun, föstudag, þar sem farið verður yfir helstu atriði hans.  Farið verður að reglum sóttvarnarlæknis um samkomuhald og reynist þörf á verður annar fundur haldinn í hádeginu á mánudag.

 

Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og hefst á hádegi á þriðjudaginn kemur 24. mars og stendur til hádegis föstudagsins 27. mars.  Rafræn skilríki eða íslykil þarf til að greiða atkvæði.  Nánari upplýingar um atkvæðagreiðsluna verða birtar síðar.  

Samantekt Hjálmars Jónssonar formanns BÍ um samninginn

Kjarasamningurinn sem undirritaður hefur verið