Skýr skilaboð frá blaðamönnum

Samningur BÍ og Samtaka atvinnulífsins var felldur í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna í BÍ í dag. Alls greiddu 147 atkvæði eða tæp 39% þeirra 380 sem voru á kjörskrá. Mikill meirihluti eða 105 vildu fella samninginn eða rúm 70% þeirra sem greiddu atkvæði.  Rétt rúmur fjórðungur vildi hins vegar samþykkja samninginn eða 36, en sex atkvæðaseðlar voru auðir.

Hjálmar Jónsson formaður félagsins sagði þessa niðurstöðu ekki koma á óvart og í þessu fælust skýr skilaboð um að blaðamenn vildu gera kjarasamning  sem tæki meira mið af þeim hóflegu kröfum sem félagið hafi farið fram með. Hann sagðist eiga von á að sáttasemjari myndi nú boða til nýs fundar í deilunni, enda hafi hann gefið út að slíkt yrði gert yrði samningurinn felldur.

Að óbreyttu þýðir þetta að blaðamenn sem starfa hjá fjölmiðlum innan vébanda SA munu fara í verkfalsaðgerðirl á föstudag og svo aftur á fimmtudaginn í næstu viku. Vinnustöðvunin á föstudag nær til blaðamanna á netmiðlum fyrirtækjanna sem SA semur fyrir, ljósmyndara og tökumanna sömu fyrirtækja.