Spurt og svarað um ferðaávísun ásamt leiðbeiningum

Hægt er að kaupa ferðaávísun í gegnum Blaðamannafélagið og hefur það vafist fyrir einhverjum hvernig á að bera sig að við kaupin. Ítarlegar leiðbeiningar eru um það hér

Spurt of svarað

Hvers vegna ætti ég að kaupa ferðaávísun?

Vegna þess að hótelkeðjur og gistiheimili hafa boðið félagsmönnum stéttarfélaganna, í krafti fjölda þeirra, betri tilboð en hægt er að fá á almennum markaði.

Hvar sé ég hvaða tilboð eru í boði?

Á vefnum orlof.is geturðu skráð þig inn, eins og þegar þú sækir um orlofshús, og valið „Ferðaávísun“. Þá koma valmöguleikarnir upp. Hvert hótel eða gistiheimili getur verið með mörg tilboð, eftir gerð herbergis eða innifalinni þjónustu.

Hvernig get ég treyst því að það komi ekki fram betri tilboð eftir að ég hef keypt ferðaávísun?

Ef sá gististaður sem þú velur þér lækkar verð í millitíðinni, þá fullnýtir þú ekki ávísunina. Það er ein af lykilforsendum þessa samstarfs, að ávísunin gildi með öllum öðrum tilboðum hótelanna. Með þessu verður fylgst náið.

Hvar kaupi ég ferðaávísunina og hvernig nálgast ég hana?

Þú ferð inn á orlofsvef þíns stéttarfélags og smellir á „Ferðaávísun“. Þegar þú hefur valið þér vöru og greitt fyrir með greiðslukorti, færðu kvittun í tölvupósti. Ávísunin þín verður á þínu svæði á orlofsvefnum og gististaðir geta flett kennitölunni upp, þegar þú mætir á staðinn.

Hvernig nota ég ferðaávísunina?

Þegar þú mætir á áfangastað gefur þú upp kennitölu þína, sem er þá skráð í bókunarkerfi gististaðarins. Þú þarft engu að framvísa öðru en persónuskilríkjum.

Get ég fengið ávísunina endurgreidda?

Já, þú getur fengið ferðaávísunina endurgreidda. Þú færð þá til baka sömu upphæð og þú lagðir út, sé hún ónýtt. Hafi punktar verið teknir af félagsmanni við kaup á ferðaávísun, þá fást þeir líka endurgreiddir.

Ég hef notað hluta ferðaávísunarinnar, get ég fengið restina til baka?

Já, þú getur alltaf fengið þann hluta endurgreiddan sem ekki hefur verið nýttur. Ef ávísunin hefur verið niðurgreidd að hluta verður endurgreiðslan í réttu hlutfalli við útlagðan kostnað þinn.

Rennur ávísunin út?

Nei, hún rennur aldrei út og þú getur sótt um endurgreiðslu hvenær sem er.

Ég hef ekki aðgang að tölvu eða snjallsíma eða er ekki með rafræn skilríki. Hvernig get ég keypt ferðaávísun?

Ekki hika við að hafa samband við skrifstofu félagsins ef þig vantar aðstoð. Við hjálpum þér með ánægju og reynum að leysa málin.