Stjórn BÍ: Fordæmir lögbann

Ályktun stjórnar Blaðamannafélags Íslands vegna lögbanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media:

Stjórn Blaðamannafélags Íslands fordæmir lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík hefur lagt við frekari birtingu frétta byggðum á gögnum úr Glitni banka, sem Stundin og Reykjavík Media hafa undir höndum og krefst þess að lögbannið verði þegar látið niður falla, enda engir þeir hagsmunir í húfi sem réttlæta slíkar aðgerðir.  Tjáningarfrelsið er grundvöllur lýðræðisins og frjálsir fjölmiðlar hornsteinar tjáningarfrelsins.  Lýðræði fæst ekki staðist án þeirra.  Ákvörðun embættis  sýslumannsins í Reykjavík er stórlega gagnrýniverð.  Miklu valdi fylgir mikil ábyrgð. Það er ávallt stóralvarlegt mál að leggja hömlur á tjáningarfrelsi í lýðfrjálsum löndum, en það er sérdeilis alvarlegt þegar það er gert í aðdraganda almennra þingkosninga.  Í því ljósi er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík fullkomlega óskiljanleg.  Það bætir svo gráu ofan á svart að gögnin höfðu verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í nærfellt tvær vikur áður en lögbannið er sett, þannig að það bar enga nauðsyn til þess að grípa til svo afdrifaríkra aðgerða gagnvart tjáningarfrelsinu í landinu.

Vantraust er mikil meinsemd í íslensku samfélagi og hefur svo verið að minnsta kosti síðastliðinn áratug.  Það er fjarri því að ástæðulausu. Í aðdraganda og eftirmálum hrunsins upplifði íslensk þjóð baneitraða blöndu viðskipta og stjórnmála og þess græðgishugarfars sem því var samfara, auk þess sem hörmungar voru kallaðar yfir fjölda íslenskra fjölskyldna í formi atvinnu- og eignamissis.  Þetta samfélag þreifst í skjóli lyga og leyndarhyggju og stjórnkerfis sem ekki taldi sig skulda íslenskum almenningi skýringar á ákvörðunum sínum.  Jafnframt reyndist íslenskt dómskerfi ekki hlutverki sínu vaxið, því miður.  Ítrekað takmörkuðu dómar tjáningarfrelsi og umfjallanir blaðamanna þannig að þeir urðu að leita réttar síns til Mannréttindadómstóls Evrópu.  Nánast undantekningalaust hafa þeir haft erindi sem erfiði og dómum Hæstaréttar Íslands verið snúið við. Það segir sína sögu.

Það er þyngra en tárum taki að tjáningarfrelsið og starfsemi fjölmiðla skuli, nú enn einn ganginn, ekki fá að njóta vafans og sprekum sé enn og aftur kastað á þann eld vantrausts sem ríkir í íslensku samfélagi.  Ekkert annað en opin og heiðarleg umræða er til þess fallin að uppræta það vantraust sem ríkir í íslensku samfélagi og til þess þarf að styrkja tjáningarfrelsið í sessi, en ekki leggja hömlur á það. Leyndarhyggja á aldrei rétt á sér.  Stjórn Blaðamannafélags Íslands skorar á nýtt Alþingi að styrkja innviði lýðræðiskerfisins og leggja sitt af mörkum til þess að stórefla faglega umræðu í íslensku samfélagi meðal annars með því að styrkja rannsóknarblaðamennsku.  Til þess ber brýna nauðsyn. Blaðamannafélag Íslands hefur lagt fram tillögur þar að lútandi og lýsir sig albúið til samstarfs í þeim efnum.  Það getur orðið mikilvægur þáttur þess að opna íslenskt samfélag og auka og styrkja opna, hlutlæga og sanngjarna umræðu.

Samþykkt á á stjórnarfundi 18. október 2017