Stjórn BÍ gagnrýnir stjórnendur Árvakurs fyrir birtingu Samherjaauglýsingar

Kæru félagar,

stjórn Blaðamannafélags Íslands hittist á fundi sl. föstudag til þess að ræða ákvörðun stjórnenda Árvakurs að birta á mbl.is auglýsingu Samherja - sem er hluti af ófrægingarherferð gegn Helga Seljan og félögum hans í Kveik. Auglýsingin á mbl.is er tengd á myndband Samherja sem hefur þann eina tilgang að reyna að þvinga fram bann við því að Helgi Seljan fjalli um málefni fyrirtækisins og er því markmið þess að þagga niður í þeim fréttamanni sem hve mest hefur haft málefni fyrirtækisins til umfjöllunar. Slíkt er alvarleg aðför að frjálsri fjölmiðlun og gróf atlaga að fréttamanni þar sem vegið er að starfsheiðri hans. 

Auglýsingin vekur jafnframt upp spurningar um þá óviðunandi stöðu sem blaðamenn á eru settir í, að þurfa að vinna efni á vef sem birtir ófrægingarauglýsingar gegn starfsfélaga á öðrum miðli.

Stjórnin ákvað að boða til pressukvölds næstkomandi fimmtudag, þann 6. maí, þar sem þetta verður rættt. Auglýsing um dagskrá fundarins verður send út á næstu dögum. Formaður sendi bréf í gær, fyrir hönd stjórnar BÍ, á Harald Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs, og Magnús Kristjánsson, þar sem stjórnin lýsti óánægju með birtingu auglýsingarinnar og óskaði jafnframt eftir því að fulltrúi fyrirtækisins mæti á fund með félagsmönnum BÍ á fimmtudagskvöld. Bréfið er birt orðrétt hér að neðan.

Með kveðju
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
formaður Blaðamannafélags Íslands


Frá: stjórn Blaðamannafélags Íslands
Til: Haraldar Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og Magnúsar Kristjánssonar auglýsingastjóra.

Reykjavík 1. maí 2021

Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir óánægju með ákvörðun stjórnenda Ávakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, um birtingu auglýsingar frá fyrirtækinu Samherja á vef mbl.is dagana 23. - 28. apríl sl.. Auglýsingin er liður í áróðursherferð Samherja gegn Helga Seljan, fréttamanni á RÚV, og samstarfsfélögum hans, sem staðið hefur linnulaust í eitt og hálft ár.

Á fjölmiðlum eru skörp skil milli auglýsingadeilda og ritstjórna en með þessari auglýsingu var stigið yfir þá línu því herferð Samherja er ekki aðeins herferð gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn heldur beinist hún gegn öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is

Auglýsingin á mbl.is er tengd á myndband Samherja sem hefur þann eina tilgang að reyna að þvinga fram bann við því að Helgi Seljan fjalli um málefni fyrirtækisins og er því markmið þess að þagga niður í þeim fréttamanni sem hve mest hefur haft málefni fyrirtækisins til umfjöllunar. Slíkt er alvarleg aðför að frjálsri fjölmiðlun og gróf atlaga að fréttamanni þar sem vegið er að starfsheiðri hans. Aukinheldur er auglýsingin liður í ófrægingarherferð Samherja gegn Helga Seljan og samstarfsfélögum hans þar sem því er margítrekað ranglega haldið fram að vinnubrögðum hafi verið ábótavant við gerð frétta um fyrirtækið og stjórnendur þess.

Þá bendum við jafnframt á siðareglur SÍA um auglýsingagerð og markaðsskilaboð. Í þeim segir í 12. grein: „Í auglýsingum má ekki hallmæla neinum einstaklingi eða hópi einstaklinga, fyrirtæki, [...] með það fyrir augum að kalla fram opinberlega fyrirlitningu eða hæðni.“

Birting auglýsingarinnar á mbl.is vekur ennfremur upp spurningar um stöðu blaðamanna sem starfa á mbl.is og hafa í sínum störfum ætíð í heiðri siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Í þeim segir meðal annars, í 1. grein, að „blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.“ Markmið og inntak auglýsingarinnar setur blaðamenn mbl.is í óviðunandi stöðu því þeir þurfa að sitja undir því að efni sem þeir skrifa, jafnvel undir nafni, birtist samhliða auglýsingu Samherja.

Stjórn Blaðamannafélag Íslands fer þess því á leit við stjórnendur Árvakurs að þeir taki tillit til þeirra sjónarmiða sem hér eru talin upp, komi sú staða upp aftur að auglýsandi óskar eftir birtingu auglýsingar þar sem vegið er að starfsheiðri fréttamanns eða fréttamanna. Ennfremur óskar félagið eftir því að fulltrúi fyrirtækisins mæti á umræðufund með félagsmönnum sem haldinn verður á fimmtudagskvöld í næstu viku, þar sem umræðuefnið er meðal annars siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu auglýsinga í íslenskum miðlum og ábyrgð fjölmiðla.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem mál tengd Samherja koma á borð stjórnar Blaðamannafélags Íslands. Félagið sendi frá sér ályktun síðasta sumar enda eru fjölmiðlar hryggjarstykkið í lýðræðislegri umræðu og þegar að þeim er vegið með órökstuddum dylgjum er vegið að tjáningarfrelsinu sjálfu og gerð tilraun til þess að grafa undan einu mikilvægasta hlutverki blaðamennskunnar, aðhaldshlutverkinu.

Fyrir hönd stjórnar Blaðamannafélags Íslands,
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður