Stjórnvaldsekt vegna samkrulls auglýsinga og ritstjórnarefnis

Fjölmiðlanefnd viriðist nú ætla að beita sektarheimildum sínum fyrir ýmis brot á fjölmiðlalögum með ákveðnari hætti en hingað til. Nefndin birtir á vefsíðu sinni í dag fjórar ákvarðanir og eitt álit sem varða brot á fjölmiðlalögum.  Álit nefndarinnar snýr að vefmiðlinum Nútímanum sem ekki gætti nægjanlega vel að því að aðskilja ritstjórnarefni og auglýsingar, en fær ekki stjórnvaldssekt.  Athygli vekur að Fjölmiðlanefnd úrskurðar í ákvöðrunum sínum fjórum að greiða skuli stjórnvaldssektir og í öllum tilfellum beinast úrskurðirnir gegn þáttum á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.  Í tveimur þessara ákvarðana er um að ræða sekt vegna þess að brotið var gegn ákvæðum fjölmiðlalaga um skýra aðgreiningu ritstjórnarefnis og  auglýsinga, reglum um auglýsingahlutfall innan klukkustundar og í öðru tilvikinueinnig  vegna ákvæða um áfengisauglýsingar.  Ein ákvörðunin lítur að óheimilli kostun fréttatengds efnis og broti á reglum um hlutlægni og ein ákvörðun fjallar um óheimila kostun fréttatengds efnis og brot á reglum um hlutlægni og friðhelgi einkalífs. Athygli vekur að í þessu síðastnefnda máli tengjast atriði 26. gr. fjölmiðlalaganna en hún fjallar um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla og er refsilaus. Um það segir í úrskurði nefndarinnar: "Engin viðurlög eru við brotum á ákvæði 26. gr. laga um fjölmiðla en fjölmiðlanefnd er heimilt að gefa út álit vegna brota á lögunum, sbr. 3. mgr. 11. gr. Brot gegn ákvæðum VI. kafla laga um fjölmiðla, þar á meðal 1. og 2. mgr. 42. gr., geta hins vegar varðað stjórnvaldssektum samkvæmt n-lið 1. mgr. 54. gr."  Sektin í þessari ákörðun er því til komin vegna kostunar á fréttaefni.  

Samtals nema sektargreiðslurnar 2 milljónum króna, eða 500 þúsund kr. fyrir hvert brot.