Lillý Valgerður, Þorsteinn J., Helgi og Sunna verðlaunuð

Verðlaunahafarnir: Lillý Valgerður Pétursdóttir, Þorsteinn J. Vilhjálmsson, Sunna Valgerðardóttir og…
Verðlaunahafarnir: Lillý Valgerður Pétursdóttir, Þorsteinn J. Vilhjálmsson, Sunna Valgerðardóttir og Helgi Seljan. Mynd: Eyþór

Blaðamannaverðlaun BÍ fyrir árið 2022 voru veitt við hátílega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu kl. 17 í dag, 10. mars. Þessi hlutu verðlaunin í flokkunum fjórum: 

Viðtal ársins: Lillý Valgerður Pétursdóttir 

Umfjöllun ársins: Þorsteinn J. Vilhjálmsson 

Rannsóknarblaðamennska ársins: Helgi Seljan 

Blaðamannaverðlaun ársins: Sunna Valgerðardóttir 

Umsagnir dómnefndar: 

Viðtal ársins 2022: 

Lillý Valgerður Pétursdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir viðtal við Arnar Þór Ómarsson og Petru Bergrúnu Axelsdóttur, íbúa á Þórshöfn á Langanesi, um aðdraganda andláts Berglindar Bjargar Arnardóttur, tveggja ára dóttur þeirra, úr Covid-19. Frásögn Arnars og Petru af missinum er átakanleg, en lýsir að auki brotalömum í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Blaðamaðurinn nálgast erfitt viðfangsefni af fágun og sýnir viðmælendum virðingu. 

Umfjöllun ársins 2022: 

Þorsteinn J. Vilhjálmsson. Fyrir útvarpsþáttaröð á Rás 1 um kennarann og útvarpsmanninn Skeggja Ásbjarnarson og ofbeldi hans gegn börnum í Laugarnesskóla. Þættirnir voru meðal annars byggðir á áhrifamiklum viðtölum við brotaþola kennarans en einnig við aðra sem báru honum vel söguna. Í sex útvarpsþáttum tókst Þorsteini J. að draga upp ljóslifandi mynd af Skeggja, virðingarstöðu hans í samfélaginu og kynferðisbrotum gegn fjölmörgum drengjum, sem og andlegt ofbeldi gagnvart stúlkum í skólanum.  

Rannsóknarblaðamennska ársins 2022: 

Helgi Seljan, Stundinni. Fyrir fréttaskýringar um Alexander Moshensky, kjörræðismann Íslands í Belarús (Hvíta-Rússlandi), og náin tengsl hans við Alexander Lukashenko, einræðisherra landsins. Rannsókn Helga leiddi meðal annars í ljós að íslensk stjórnvöld áttu mikil samskipti við fulltrúa Evrópuríkja eftir að Moshensky leitaði liðsinnis þeirra vegna boðaðra refsiaðgerða gegn honum en Moshensky er umfangsmikill kaupandi íslenskra sjávarafurða. Í kjölfar fréttaskýringanna var mál Moshenskys tekið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og utanríkisráðherra kallaður fyrir nefndina. 

Blaðamannaverðlaun ársins 2022: 

Sunna Valgerðardóttir, RÚV/ fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir fréttaskýringar á miðlum Sýnar og RÚV. Í Kompási varpaði Sunna nýju ljósi á trúarofbeldi innan sértrúarsöfnuða sem og ýmissa hópa sem fást við andleg málefni, og afleiðingar þess. Þá gaf þáttur hennar um ópíóíðafíkn raunsanna mynd af heimi morfínfíknar. Seinni hluta árs hafði Sunna umsjón með uppbyggingu nýs fréttaskýringaþáttar, Þetta helst, á Rás 1 þar sem efnistök eru fjölþætt og oft nýstárleg. 

Ávarp formanns dómnefndar, Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur: 

„Ágætu félagar,

Fjölmiðlaárið 2022 litaðist af eftirköstum kórónuveiru. Þetta er árið þar sem stríð geisar í Evrópu. Ríkisbanki seldur, verðbólgan fór á stjá og #MeToo gekk í endurnýjun lífdaga. 

Ef við lítum til fjölmiðla er árið 2022 hugsanlega árið þar sem við kvöddum endanlega íslenska fjölmiðlaumhverfið eins og við höfum þekkt það nær alla þessa öld: Kvöddum samkeppni prentmiðla.

Við sáum sjálfstæðu fjölmiðlana Kjarnann og Stundina renna í einn. Við sáum landsbyggðarmiðilinn N4 leggja upp laupana nú í byrjun árs og Fréttablaðið – sem yfir 60% landsmanna las fyrir rúmum áratug – hætta frídreifingu og falla í rétt rúmlega 15% lestur. Sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja. Á meðan stendur RÚV styrkum fótum undir verndarvæng ríkisins. Þessa stöðu má jafnvel sjá í tilnefningunum í ár. 

Það eru sannarlega umbrotatímar í fjölmiðlum. Fjölmiðlamenn keppa við upplýsingaveitur sem lúta ekki siðareglum blaðamanna eða aðhaldi ritstjórna. Geta bara sagt. Fullyrt. Nú er tími þar sem blaðamenn þurfa að halda fast í fagmennsku sína. Sérstöðu. Um leið þurfa þeir að vara sig á sjálfsritskoðun sem er helsta ógn fjárþurfi fjölmiðla. Fjölbreytnin eflir lýðræðið.

Blaðamannaverðlaun í ár eru veitt í tuttugasta sinn. Þau hafa fest sig í sessi. Sannað gildi sitt.  Á þessum árum hafa 76 verðlaun verið veitt fyrir 67 umfjallanir samkvæmt nýrri óbirtri úttekt Friðriks Guðmundssonar. 

Nú uppskerum við og bætum í þennan hóp. Verðlaunum framúrskarandi verk. Verðlaunum handbragð blaðamannsins. Þessi dagur skiptir hvert og eitt okkar hér máli. Hann skiptir stétt okkar mál. Hann skiptir samfélagið máli. 

Dómnefnd Blaðamannafélagsins er með breyttu sniði í ár. Við þökkum Óla Kr. Kristjánssyni og Arndísi Þorgeirsdóttur samfylgdina í gegnum árin. Ný inn í ár: Jóhann Óli Eiðsson, Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Þórir Guðmundsson. Auk þeirra þriggja Steinunn Stefánsdóttir og undirrituð, Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir. 

Við berum ábyrgð á því að varpa ljósi á styrk íslenskra fjölmiðla. Sýna breiddina sem við búum yfir og gæðin í íslenskri blaðamennsku. Margar umfjallanir bönkuðu á dyrnar. Jafnvel margar frá hverjum blaðamanni. Gullmolar leyndust víða í tilfnefningunum. Valið var krefjandi en þessar tólf tilnefningar eru verðugir fulltrúar þeirra. 

Rétt er að ítreka sem endranær, að nefndarmenn huguðu samviskulega að hæfi sínu þegar kom að því að meta einstakar tilnefningar. Nú veitum við verðlaun í fjórum flokkum:

– fyrir Viðtal ársins, Rannsóknarblaðamennsku ársins, Umfjöllun ársins og Blaðamannaverðlaun ársins. 

Þetta er hátíðarstund. Til hamingju með daginn.“