Tímamóta atkvæðagreiðslur á Evrópuþinginu

Evrópuþingið greiddi í dag atkvæði í tveimur ólíkum málum sem þó hafa vakið athygli og fengið stuðning úr röðum fjölmiðlafólks og blaðamannasamtaka í álfunni. Annars vegar greiddi þingið atkvæði um og samþykkti óbreytta tilskipun um höfundavernd í rafrænni miðlun, en bæði Alþjóðasamband blaðamanna og Evrópusamband blaðamanna höfuð hvatt mjög til þess að það mál færi í gegn, þar sem með því væri tryggður sanngjörn hlutdeild blaðamanna í höfundarétti.

Hitt málið hefur vakið jafnvel enn meiri athygli, en þar um er að ræða að Evrópuþingið hefur nú samþykkt í fyrsta sinn að beita 7. grein grundvallarsáttmála sem gengur út á að refsa aðildarríki sem brýtur í bága við grunngildi og sjónarmið sem Evrópusambandið sjálf er byggt á.  Samþykktin beinist gegn Ungverjalandi en ríkisstjórn Victors Orban hefur verið sökuð um, m.a. í skýrslu unnin á vegum þingsins undir stjórn hollenska Evrópuþingmannsins Judith Sargentini,  að ráðast að frjálsri fjölmiðlun, minnihlutahópum og réttarríkinu sjálfu. Þessum ásökun hefur Orban staðfastlega vísað á bug, m.a. í ræðu sem hann flutti í Evrópuþinginu í gær. Þar talaði hann um yfirvofandi refsiaðgerðir sem fjárkúgun og sagði að skýrsla hollenska þingmannsins væri misnotkun á valdi.

Ef svipuð samþykkt verður gerð í ráðherraráðinu líka má gera ráð fyrir að refsiaðgerðir gegn Ungverjalandi taki gildi og felist meðal annars í útilokun frá þátttöku í ákvörðunum og atkvæðagreiðslum á vegum ESB.

Sjá einnig hér