Trúnaðarmaður á Morgunblaðinu segir af sér

Guðni Einarsson, trúnaðarmaður Blaðamannafélags Íslands á Morgunblaðinu, hefur sagt af sér vegna afskipta stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu Samherja á mbl.is. Mikilvægt er að öll sjónarmið félaga fái að heyrast í þessu máli sem öðrum og því hefur fengist leyfi frá Guðna til að birta bréfið hér í heild sinni:

Til stjórnar Blaðamannafélags Íslands,

með bréfi þessu segi ég af mér sem trúnaðarmaður Blaðamannafélags Íslands á Morgunblaðinu. Ástæða þess eru afskipti stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu á mbl.is. Með þeim fer stjórn félagsins langt út fyrir sitt hlutverk að mínu mati og það hvorki get ég né treysti mér til að verja sem fulltrúi félagsins á mínum vinnustað.

Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur þess að gæta "faglegra og stéttarlegra hagsmuna félagsmanna í hvívetna" (1. gr.). Einnig að "standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi" (1.2 b gr.) og að hafa "áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um fjölmiðlun og tjáningarfrelsi" (1.2 d). Síðast en ekki síst: "Að standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla" (1.2 e).

Var stjórnin að gæta hagsmuna allra félagsmanna sinna eða að standa vörð um prent- og tjáningarfrelsi? Var hún að slá skjaldborg um sjálfstæði fjölmiðla? Með ákvörðun sinni tel ég að stjórnin hafi brotið gegn lögum eigin félags. Hún ætti að sjá sóma sinn í að draga gagnrýni sína til baka og að einbeita sér að tilgangi félagsins.

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku lærði ég að "Kínamúr" væri á milli ritstjórnar og auglýsingadeildar. Blaðamenn skiptu sér ekki af auglýsingum og skrifuðu ekki auglýsingaefni og öfugt. Þessi regla hefur almennt gilt á ritstjórnum sem hafa einhvern metnað og sjálfsvirðingu. Telji menn að tilteknar auglýsingar séu meiðandi eða ósannar þá eru leiðir til að taka á því, t.d. fyrir dómstólum.

Ekki þarf að fjölyrða um erfið rekstrarskilyrði allra annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins, sem árlega fær hátt meðlag frá skattgreiðendum auk þess að vera fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði. Aðrir útgefendur reiða sig að miklu leyti á auglýsingatekjur og sumir á áskriftartekjur að auki. Það að stéttarfélag blaðamanna skipti sér af tekjuöflun einstakra útgefenda er í mínum huga langt fyrir utan verksvið þess.

Virðingarfyllst,

Guðni Einarsson
trúnaðarmaður BÍ á Morgunblaðinu
Reykjavík