Tveir blaðamenn hljóta friðarverðlaun Nóbels

Blaðamennirnir Maria Ressa frá Filippseyjum og Dmitry Muratov eru friðarverðlaunahafar Nóbels 2021.
Blaðamennirnir Maria Ressa frá Filippseyjum og Dmitry Muratov eru friðarverðlaunahafar Nóbels 2021.

Blaðamennirnir Maria Ressa og Dmitry Muratov hljóta friðarverðlaunum Nóbels í ár fyrir framlag sitt til verndar tjáningarfrelsinu. Í tilkynningu frá Nóbelsverðlaunanefndinni segir að tjáningarfrelsið sé grundvöllur lýðræðisins og forsenda friðar og hljóta Ressa og Muratov verðlaunin fyrir kjarkmikla baráttu sína fyrir tjáningarfrelsinu í heimalöndum sínum, Filippseyjum og Rússlandi. Þau séu um leið fulltrúar allra blaðamanna sem standi vörð um tjáningarfrelsið í heimi þar sem stöðugt er sótt að lýðræðinu og fjölmiðlafrelsinu. 

Maria Ressa nýtir tjáninarfrelsið til þess að svipta hulunni af valdamisnotkun, ofbeldi og vaxandi einræðistilburðum í heimalandi sínu, Filippseyjum. Árið 2012 tók hún þátt í stofnun Rappler, netmiðils þar sem áhersla er lögð á rannsóknarblaðamennsku, og stýrir hún miðlinum enn. Sem blaðamaður, segir í tilkynningunni, hefur Ressa sýnt að hún hafi fjallað á gagnrýninn hátt um ríkisstjórn Duerte og vafasama herferð hans gegn fíkniefnum sem hefur skilið eftir sig morðslóð. Svo margir hafi verið teknir af lífi að herferðin líkist nánast stríði gegn eigin þjóð. Þá hafi Ressa og Rappler skýrt frá því hvernig samfélagsmiðlar séu nýttir til þess að dreifa falsfréttum, áreita andstæðinga og stýra opinberri umræðu. 

Dmitry Andreyevich Muratov hefur í áratugi staðið vörð um tjáningarfrelsið í Rússlandi undir æ meira krefjandi kringumstæðum. Hann var einn af stofnendum óháða dagblaðsins Novaja Gazeta árið 1993 og hefur verið ritstjóri þess frá árinu 1995. Novaja Gazeta er óháðasta dagblað Rússlands í dag og veitir valdhöfum aðhald. Blaðamennska Novaja Gazeta er ástunduð af fagmennsku og byggð á staðreyndum og hefur gert blaðið að mikilvægum upplýsingabrunni um þær hliðar ástandsins í Rússlandi sem aðrir fjölmiðlar fjalla ekki um vegna ritskoðunar stjórnvalda. Meðal þess sem Novaja Gazeta hefur fjallað um á gagnrýninn hátt er spilling, ofbeldi af hendi lögreglu, ólöglegar handtökur, kosningasvindl og fleira. Andstæðingar Novaja Gazeta hafa svarað með áreiti, hótunum, ofbeldi og morðun en frá upphafsdögum blaðsins hafa sex blaðamenn þess verið myrtir, þar á meðal Anna Politkovskaja, sem skrifaði afhjúpandi grein um stríðið í Tsjetseníu. 

Í tilkynningunni segir ennfremur að frjáls, óháð blaðamennska, byggð á staðreyndum, verndi gegn misnotkun valds, lygum og stríðsáróðri. Friðarverðlaunanefndin sé sannfærð um að tjáningarfrelsið og rétturinn á því að fá upplýsingar hjálpi til við þess að tryggja það að almenningur sé upplýstur. Þessi réttindi séu grundvallarforsenda lýðræðis og verndi gegn stríðum og átökum. Það sé markmiðið með því að verðlauna Ressa og Muratov, að undirstrika mikilvægi þess að vernda og verja þessi grundvallarréttindi.