Umboðsmaður hvattur til frumkvæðisathugunar

Embætti umboðsmanns Alþingis er til húsa í Þórshamri
Embætti umboðsmanns Alþingis er til húsa í Þórshamri

Blaðamannafélags Íslands hefur sent ítarlega rökstutt erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem hann er hvattur til að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra vegna málatilbúnaðar þess gegn fjórum blaðamönnum.

Af þessu tilefni segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ:

„Það er mikilvægt að fá álit Umboðsmanns Alþingis á því hvort ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að kalla blaðamenn til yfirheyrslu fyrir það eitt að vinna vinnuna sína, hafi verið í samræmi við hlutverk lögreglu og þá vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Blaðamannafélagið hefur ítrekað bent á að um störf fjölmiðla gilda önnur lög og reglur en önnur störf, vegna hlutverks fjölmiðla og mikilvægis þeirra fyrir lýðræðislega umræðu. Hlutverk umboðsmanns er að tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum og því mikilvægt að fá úr því skorið hvort brotið hafi verið á rétti blaðamannanna fjögurra í þessu tilviki. Blaðamannafélagið minnir á mikilvægi fjölmiðla í því að tryggja almenningi rétt til upplýsinga og að frjáls fréttaflutningur og vernd heimildarmanna séu grundvallarforsendur fyrir því að fjölmiðlar geti gegnt hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi.“

Ekki léttvæg ráðstöfun

Í erindinu, sem Flóki Ásgeirsson lögmaður skrifar fyrir hönd félagsins, segir meðal annars (á bls. 8 af alls 9):

„Þótt ljóst megi vera að virtum þeim gögnum sem Blaðamannafélag Íslands hefur undir höndum að rannsókn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra muni ekki leiða til ákæru á hendur blaðamönnunum fjórum, hvað þá til sakfellingar, er ekki unnt að mati félagsins að leggja til grundvallar að kvaðning blaðamanna í skýrslutöku hjá lögreglu sem sakborninga í sakamáli sé léttvæg ráðstöfun sem engin ástæða sé til að staldra við. Blaðamenn eru vitanlega ekki fremur en einstaklingar í öðrum starfsstéttum undanþegnir rannsókn sakamála. Það sem hér er til umfjöllunar, og Blaðamannafélag Íslands telur ríka ástæðu til að staðnæmst sé við, er hins vegar þegar lögregluyfirvöld telja tilefni til að bregðast við fréttaflutningi, sem bersýnilega á brýnt erindi við almenning og útilokað er að falið geti í sér refsiverða háttsemi af hálfu fjölmiðla, með því að hefja sakamálarannsókn á hendur hlutaðeigandi blaðamönnum. Slík viðbrögð lögreglu við eðlilegri umfjöllun fjölmiðla um málefni sem ljóslega eiga erindi við almenning eru að mati félagsins hvorki í samræmi við hlutverk fjölmiðla né lögreglu í lýðræðisríki og ekki samrýmanleg þeirri vernd sem fjölmiðlar njóta samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Erindinu lýkur á þessum orðum:

„Það er með allt ofangreint í huga sem Blaðamannafélag Íslands snýr sér til umboðsmanns Alþingis með beiðni um að umboðsmaður taki til þess afstöðu á grundvelli fyrirliggjandi ábendingar hvort tilefni sé til þess að hann taki stjórnsýslu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í hlutaðeigandi máli til nánari athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997,“ enda séu „[f]jölmörg fordæmi [...] fyrir því að atvik sambærileg þeim sem fyrirliggjandi ábending varðar, þar sem reynt hefur á ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu í tengslum við mál sem hafa almenna þýðingu líkt og hér á við, hafi orðið umboðsmanni tilefni til frumkvæðisathugunar [...].“ 

Nálgast má erindið í heild sinni hér